Vangaveltur 5. júní 2020


Lengi hef ég haldið því fram að hugarfar skipti máli hvernig við upplifum hlutina. Ég get ekki talið statusana sem ég hef séð á samfélagsmiðlum þar sem fólk vill hætta við 2020, skila því og byrja nýtt ár. Gleyma því hreinlega. Sem ég skil fullkomlega, það er heldur betur búið að hrista upp í okkur og láta okkur upplifa margar tilfinningar. Sem fékk mig til að hugsa.
Hvað ef árið 2020 er árið sem við höfum beðið eftir?
Árið sem fær okkur til að staldra við og hugsa? Fær okkur til að horfa til kjarnans vegna allra þeirra óþæginda sem það hefur valdið, skaða og hræðslu?
Árið sem hreinlega neyðir okkur til að vakna upp af sjálfsstýringunni og því sinnuleysi sem við höfum viðhaldið gagnvart náttúrunni og samfélaginu.
Að við tökum þá ákvörðun í sameiningu að við þurfum að breytast og það sem er jafnvel enn mikilvægara; að við séum tilbúin fyrir breytingu.
Þegar við erum tilbúin fyrir breytingu förum við að krefjast breytinga, vinnum að breytingum og verðum breytingin.
Allt sem árið hefur dembt á okkur gefur okkur tækifæri til að þjappa okkur saman í stað þess að tvístra okkur í sundur. Sameinast í að byggja samfélagið upp. Sameinast vegna mannréttinda og hlúa að náttúrunni.
Kannski er árið 2020 eitt það mikilvægasta og þarfasta ár sem hefur komið í langan tíma og því þurfum við að sinna því, í stað þess að slaufa yfir það. Okkar er valið.
Hvað finnst þér?


Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 16. maí 2023

Vangaveltur 12. október 2017