Vangaveltur 27. apríl 2018


Góðan daginn.
Þið hafið ekki heyrt frá okkur lengi og gildir þar orðatiltækið engar fréttir eru góðar fréttir. Vala Mist fór í segulómun á höfði fyrr í mánuðinum sem kom vel út og hún masteraði það eins og allt annað sem hún gerir, en þetta er 18. svæfingin hennar, þar sem hún er ekki komin með aldur til að liggja grafkyrr í 20 mínútur (eða hvað sem segulómunin tekur langan tíma, er ekki með mínútufjöldann á hreinu).
Við lærðum líka að innritun og innlögn á sjúkrahús er ekki það sama, en þegar maður mætir í innritun daginn fyrir aðgerð er bara verið að athuga hvort aðilinn sé í stakk búinn til að mæta í aðgerð/svæfingu daginn eftir, svo förum við bara „heim“ og mætum um morguninn fastandi. Sem betur fer eigum við góða að þannig að við lentum ekki á götunni, en við vorum ekki búin að ráðstafa gistingu þar sem við héldum að við myndum gista á Barnaspítalanum. Þar sem allt kom vel út höldum við áfram reglubundnu eftirliti sem er núna á 3 mánaða fresti hjá hjarlæknum og heila- og taugalæknum. Þess á milli dafnar Vala Mist og bræðir okkur og alla í kringum sig.
Það breytir því þó ekki að stundum á maður slæma daga. Eins og ég í gær. Í gær var ég þreytt, alveg virkilega þreytt. Stóð þar uppúr hvað ég var þreytt á því að vera þakklát. Kannski mætti orða það þannig að ég var þreytt á að ÞURFA að vera þakklát. Þetta var týpískt dæmi um afhverju ég?! og gleyma sér í því að horfa á það sem maður á ekki í stað þess á það sem maður á. Þetta vill gerast á bestu bæjum og ef það er eitthvað sem ég er búin að læra síðastliðið ár er að loka ekki á þessar tilfinningar. Sem er ástæðan fyrir að ég er að skrifa þetta innlegg, því við erum rosalega gjörn á það að loka á tilfinningar sem eru ekki æskilegar og viðbrögðin eru oft: láttu ekki svona, auðvitað getur hún ekki X eða Y, eftir allt sem hún hefur gengið í gegnum, hvað er að þér?
Það eina sem þessi viðbrögð gefa manni er samviskubit, yfir alls konar. Samviskubit yfir að vera svona kröfuhörð, samviskubit yfir að vera ekki þakklát, samviskubit yfir að vera vond að hugsa svona.
Í staðin fyrir samviskubitið getur maður líka bara viðurkennt þessar tilfinningar og þannig tekist á við þær. Því að jú, þetta er ósanngjarnt, þetta er erfitt og maður er ekki vondur þó manni líði þannig.
Rökrétta hliðin á manni veit þetta auðvitað, en ykkur að segja, þá eru tilfinningar oftar en ekki allt annað en rökréttar.
Þannig að í gær, þegar ég stóð sjálfa mig að því að dúndra smjörhnífnum í vaskinn af bræði þar sem að hart smjörið reif nýbakaða brauðið mitt, vissi ég að dagurinn yrði allt annað en góður ef ég héldi áfram á sömu braut.
Svo ég settist bara niður á gólfið í miðju eldhúsinu mínu, lokaði augunum og leyfði tilfinningunum að koma fram. Þetta tók ekki nema 5 mínútur af tárum og ekka, að ég stóð upp aftur og var tilbúin að tækla daginn. Því ég leyfði mér að vera ekki þakklát í bara smá stund. Með því að leyfa mér það að vera ekki þakklát, stóð ég upp þakklát og meir fyrir lífið, fyrir sjálfa mig og fyrir fólkið mitt allt.
Ástæðan fyrir þessu innleggi mínu er tvennskonar.
Fyrri ástæðan er einungis fyrir mig, þar sem ég finn hvað það gerir mér gott að tala og skrifa um þetta.
Hin síðari er að ég vonast eftir því að þessi skrif hjálpi einhverjum í sömu sporum sem eru kannski ennþá, eins og ég gerði, að bæla og afneita neikvæðum tilfinningum, því manni „á ekki“ að líða svona.
Það er nefnilega fullkomlega eðlilegt og bara mannlegt að líða stundum illa. Og þú þarft heldur ekki að hafa einhverja brjálaða afsökun fyrir því, stundum þarf maður bara útrás. Það að finnast manni ekki mega líða illa því einhver annar hefur það verra en maður sjálfur, er eins og að segja að maður megi ekki vera hamingjusamur því það er einhver annar sem hefur það betra en maður sjálfur. Sem er jafn fáránlegt og það hljómar.
Takk fyrir lesturinn og að vera til staðar, þið eruð frábær.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023