Færslur

Sýnir færslur frá nóvember, 2018

Vangaveltur 26. nóvemer 2018

Mynd
Á aðfaranótt laugardags kvaddi elsku Vala Mist okkar þennan heim, í faðmi okkar foreldranna í fallegri stund. Við þökkum allan hlýhug og góðar kveðjur. Þeir sem vilja minnast hennar er bent á endurhæfinguna á Sauðárkróki, en þar átti Vala Mist margar góðar stundir og sigra, því viljum við aðstoða þau að bæta tæki og aðstöðu. Blóm og kransar eru afþökkuð og myndum við frekar vilja að þið mynduð leggja inn á reikning endurhæfingunnar. Reikningurinn er 0349 13 250100 og kt.5712972139

Vangaveltur 22. nóvember 2018

Á þriðjudaginn kom í ljós í rannsókn að Vala Mist er með bjúg á heilanum sem þýðir að hann hefur orðið fyrir súrefnisskorti. Hún var tekin af svefnlyfjum í gær og hituð í eðlilegan líkamshita en hún hefur enn ekki vaknað. Hún er enn í öndunarvél og verður það amk þar til á mánudag, en þá fer hún í nýtt heilalínurit og staðan tekin í framhaldi af því. Þökkum hlýjar kveðjur.

Vangaveltur 19. nóvember 2018

Í gærkvöldi fékk Vala Mist krampa/flog og hætti að anda í kjölfarið og fór í hjartastopp. Við framkvæmdum endurlífgun þar til lögregla og sjúkrafólk mætti á staðinn og þau tóku við. Við fórum svo með sjúkraflugi suður og liggur hún núna inni á gjörgæslu á Hringbraut þar sem á að halda henni sofandi fram á miðvikudag og kæla líkamshitann niður í 34° til að leyfa líkamanum að jafna sig og minnka líkur á einhverjum skemmdum. Við fáum aðstöðu á barnadeildinni fyrir dótið okkar og rúm til að sofa í svo við getum verið þar á meðan hún er inniliggjandi. Dagurinn er tíðindalítill sem er gott á læknamáli, viljum hafa engar frèttir þar til á miðvikudag. Blóðprufurnar koma vel út sem benda til að það hafi ekki verið súrefnisskortur og blóðflæði allan tímann þannig að endurlífgunartilraunir okkar báru vonandi tilætlaðan árangur en auðvitað er ekkert hægt að segja fyrr en á miðvikudag, svo þangað til einbeitum við okkur að því að vera jákvæð og senda Völu Mist krafta með kossum.