Vangaveltur 16. maí 2023

Það er langt síðan ég hef sett eitthvað hérna inn, ekki nema eina færslu síðan ég átti Sólrúnu Ingu sem er nýlega orðin eins árs. En ég fann þörf til að deila þessum skrifum með ykkur þar sem fyrr í dag, átti ég samtal við aðra móður, sem á dóttur á aldur við Sólrúnu Ingu og við vorum, í gamansömum tón, að segja frá uppátækjum dætra okkar, sem eru duglegar að fara út um allt og upp um allt. Mér varð hugsað til þessara skrifa þegar ég kom heim og minntist stormsins innra með mér þegar ég skrifaði þessi orð, kvöldið áður en Vala Mist þurfti í enn eina aðgerðina. Kannski hjálpa þessi skrif mín einhverjum sem er að ganga í gegnum eitthvað flókið, ég veit að þau hjálpuðu mér. 

27. september 2017
Hér sit ég hágrátandi því mér finnst ég ekki hafa stjórn á neinu. Úti grætur rigningin með mér og ég horfi á regndropana leka niður rúðuna á stóru gluggunum á Barnaspítalanum. Mikið er ég þakklát fyrir að ég sé ekki bitur. Það er held ég alveg rosalega auðvelt að verða bitur í þessum aðstæðum, því tilfinningarnar sem að storma um innra með manni eru svo flóknar. Reiði, sorg, hræðsla, gleði og þakklæti yfir öllu og allskonar. Af hverju er barnið mitt veikt? Af hverju heldur heimurinn og lífið áfram á meðan ég er eins og í frosnum veruleika hérna inni á spítalanum. Ég segi frosinn því lífið er hálf stopp hérna, þar sem við tökum klukkustund fyrir klukkustund. Í gær var það dag fyrir dag, en það á ekki lengur við. Ég gæti verið bitur og reið yfir því að vera ein hérna inni á stofunni með henni. Ég gæti verið bitur yfir því að heimilið mitt er 300 km í burtu þannig að ef ég fæ að komast út af stofunni hef ég samt engan stað til að fara á. Það er þó ekki rétt, ég veit að mörg heimili standa mér opin hérna, en stundum langar manni bara heim. Að gera ekkert. Fara upp í rúmið sitt undir sæng. Að vera sófaklessa. Að þurfa ekki að spjalla kurteisisspjall þar sem gestgjafinn reynir að láta manni líða betur, því vanmátturinn er svo svakalegur í því að finnast maður ekkert geta gert.
Ég gæti líka verið bitur yfir því hve mikið mér finnst ég vera ein, föst í endalausri baráttu, þar sem ég þarf að horfa á dóttir mína þjást á meðan aðrir fá að halda áfram með lífið, í stað þess að vera hérna inni með okkur. En ég átta mig á að þetta er eingöngu mínar tilfinningar, mín öfund og afbrýðisemi, sem ég upplifi gagnvart öðrum. Ó hve ég vildi óska að lífið væri ekki svona flókið og Vala væri ekki svona veik, með þessa sjúkdóma sem virðast aldrei ætla að gefa okkur frí. 
Ég er þakklát fyrir að finnast enginn skulda mér neitt, því það skuldar mér enginn að vera hérna með okkur. Ef ég væri þannig þenkjandi, held ég að reiðin, hræðslan og biturðin myndi vinna þar sem ég myndi bíta fólk frá mér þegar það svo réttir fram hjálparhönd. Mikið held ég að mér myndi líða illa ef ég myndi næra þessar tilfinningar. Því er ég þakklát að þekkja sjálfa mig nógu vel og skilja hvað ég er að upplifa og af hverju. 
Að öll þessi reiði sem ég upplifi er partur af því að ég er að syrgja það að eiga ekki heilbrigt barn. Syrgja það að geta ekki “kvartað” yfir því í gamansömum tón að hún sé farin að skríða út um allt og príla á húsgögnunum. Kvarta yfir svefnlausum nætum og að vakna við karate spörk þegar maður er búin að taka hana upp í og hún vill losna úr kúrinu og hreyfa sig í svefni.
Það er svo margt sem ég syrgi að það er ekki skrítið að ég sé reið. Því þetta er ógeðslega ósanngjarnt. Sérstaklega gagnvart Völu Mist. En líka gagnvart mér. Því ég má vera sjálfselsk og finnast það, það bara má. Ég hugsa að ég væri ekki mannleg ef ég myndi ekki hugsa svona. En það er mitt að vinna úr þessu. Mitt að þakka fyrir allt það góða sem við eigum. Því ég er hamingjusöm, jafnvel núna, þó ég sé skíthrædd og viðbjóðslega þreytt. Það að vera hamingjusöm þýðir ekki að vera í stanslausu partýi svífandi um á bleiku skýji. Manni getur jafnvel liðið illa en verið samt hamingjusöm. Eins og ég akkúrat núna.
Því hvernig er annað en hægt að vera hamingjusamur þegar maður á alla þessa ást? Ég bæði elska og er elskuð. Ef það er ekki grunnurinn að hamingjunni veit ég ekki hvað hann gæti verið. Ég vil því leyfa ástinni að vinna og skrifa reiðina úr mér. 
Bless reiði, takk fyrir hjálpina en ég þarf þig ekki akkúrat núna, ég er of þreytt til að vera reið, leyfðu mér bara að elska.

Ég hef oft notað þessa aðferð, þar sem ég skrifa reiðina eða neikvæðar tilfinningar í burtu. Einhvernvegin virkar þetta fyrir mig. Ég veit að þessar tilfinningar eru mér nauðsynlegar til að komast í gegnum verkefnið sem er í gangi, en ég veit líka að ég má ekki festa mig í þeim. Það væri uppskrift að einhverju sem ég vil alls ekki. Það má vera að þetta virki kjánalegt og jafnvel barnalegt, en mér er sama, þetta er mín leið til að þjálfa hugann í að hugsa á þann hátt sem ég óska eftir. Þar sem ég leita eftir því góða og jákvæða í lífinu án þess að hafa það þvingað. Því maður má ekki neita sér um neinar tilfinningar, heldur fara í gegnum þær og ákveða svo hvaða tilfinningar maður vill næra. Þetta er meira en að segja það, en verður auðveldara eftir því sem maður gerir það oftar og þjálfar hugann. Ég hvet þig til að prófa, hvaða aðferð sem þú kýst, það er ekkert rétt eða rangt í þessum efnum.
 


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017