Vangaveltur 29. janúar 2021

Um daginn var ég spurð hve langan tíma það tekur að temja sér þakklæti og jákvætt hugarfar. Ég varð hálf orðlaus og man nú ekki hverju ég stamaði upp en þetta fékk mig til að hugsa. Eins og áður þurfti ég smá tíma til að melta spurninguna.

Það er örugglega eins mismunandi og við erum mörg hvað það tekur langan tíma að þjálfa hugann í einhverju. Ég átta mig alveg á að ég var þakklát að eðlisfari áður en ég tók þá meðvituðu ákvörðun að vera þakklát fyrir eitthvað á hverjum degi. 

Sú ákvörðun var engu að síður gríðarlega mikilvæg, því með því að taka þá ákvörðun þjálfa ég hugann meðvitað á hverjum degi að líta á það sem ég er þakklát fyrir og þannig fer ég einnig að gera það ósjálfrátt ómeðvitað.

Hve langan tíma þetta tók mig get ég þó enn ekki svarað nákvæmlega. En til að hafa einhverja viðmiðunarpunkta þá varð ég mér hugsað til dagsins eftir að Vala Mist dó, en hún dó á aðfaranótt laugardags í lok nóvember 2018, en þá var liðið um 1 1/2 ár síðan ég tók meðvitaða ákvörðun um að ætla að vera þakklát.

Varð mér hugsað til þessa dags því ég man að Ásrún spurði mig seinnipartinn: "mamma, hvernig er þessi dagurinn eiginlega búinn að vera?". Og ég man að ég svaraði að þetta væri búið að vera góður en erfiður dagur. Ásrún varð hissa og spurði hvernig hann gæti bæði verið góður og erfiður. Ég svaraði henni á þá leið að hann væri erfiður því að systir hennar væri nýdáin en hann væri líka góður því hann væri búinn að vera svo uppfullur af ást. 

Fjölskyldur okkar stóðu þétt við bakið á okkur og við leyfðum okkur að syrgja saman. Við fengum hlýjar kveðjur frá vinum og vandamönnum. Við áttum fallega stund þar sem við deildum með hverju öðru hvað við værum þakklát fyrir að Vala Mist hefði gefið okkur. Við fundum í bæði verki og anda hve elskuð við værum og hvað við stöndum þétt saman.

Svo ég er innilega þakklát fyrir þennan dag og að fá að upplifa allan þennan kærleik. Ég er líka þakklát fyrir að við fengum viku til að undirbúa okkur til að kveðja Völu Mist og fara í gegnum allar þær tilfinningar þannig að þær skullu ekki allar á okkur í einu. 

Ég er þakklát fyrir að hafa verið á þeim stað að getað áttað mig á öllu því góða í kringum mig þegar dóttir mín var nýlátin, því sársaukinn að missa hana var skerandi, en með því að finna allan þennan kærleika í kringum okkur varð hann einhvernvegin bærilegri.

Ég er líka þakklát fyrir að við Valur tókum þá sameiginlegu ákvörðun að við ætluðum að halda áfram að vera hamingjusöm, halda áfram að lifa og við ætluðum að lifa því lifandi. Þessi ákvörðun var algjörlega okkar og rosalega mikilvæg fyrir okkur að taka. Hvort sem það er daginn eftir mikinn missi eða einhver ár, hver og einn verður að finna það innra með sér hvenær hann/hún er tilbúin/n en það er ekkert sjálfgefið að geta tekið þessa ákvörðun þegar sársaukinn er skerandi.

Ég er líka þakklát fyrir að á þeirri stundu sem við tókum þessa ákvörðun að ég var algjörlega meðvituð um að lífið yrði áfram alls konar, með gleði og sorg og öllum þeim tilfinningum sem fylgja því. Að það sé í lagi að stundum líði manni illa og maður þurfi útrás fyrir það að líða þannig. En það að átta sig á að ég væri hamingjusöm og ætti gott líf þrátt fyrir að vera að ganga í gegnum mesta sársauka lífs míns opnaði augu mín verulega hve mikilvægt hugarfar er.

Sem er ein af ástæðunum fyrir því að ég tjái mig svona um tilfinningar á opinberum vettvangi og vona að það hjálpi öðrum sem ganga í gegnum svipað. Það er líka ein af ástæðunum fyrir að ég útbjó dagbókina, en ég trúi því innilega að maður getur þjálfað hugann í ákveðnu hugarfari og styrkt það og bætt. Þetta er langtímaverkefni sem þarf að sinna og öll hjálpartæki eru því vel þegin í þessari vegferð. 

Önnur ástæða fyrir þessum skrifum mínum og það að útbúa dagbókina er hve mikið það hefur gefið mér og hjálpað mér að vinna úr alls konar tilfinningum og einmitt, að þjálfa huga minn í þakklæti og jákvæðni.

Ég þakka ykkur enn og aftur fyrir lesturinn og vona að þið getið staldrað við og fundið eitthvað sem þið eruð þakklát fyrir daginn í dag, sama hvað hann hefur fært ykkur.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023