Vangaveltur 24. nóvember 2022

Í dag eru 4 ár síðan Vala Mist lést. Ég er búin að ströggla extra mikið í ár með þessa viku, sem hófst 18. nóvember þegar hún fór í hjartastoppið. Í raun finnst mér sá dagur erfiðari en dagurinn þegar hún svo lést.

Suma daga hefði ég ekki komið mér fram úr nema vegna þess að ég hreinlega þurfti þess. Ég er búin að vera meir og gráta nánast á hverjum degi, útaf engu, útaf öllu. Tárin renna og gera sitt besta að vökva sálina á meðan ég festi mig í minningum og sorg. 

Ég átta mig alveg á afhverju ég á svona erfitt með sorgina í ár. Núna er ég með litla dúllu í fanginu sem er svo lífsglöð að við þurfum að hafa okkur öll við að halda í við hana, þar sem hún stendur upp meðfram öllu, farin að skríða fáránlega hratt, sérstaklega þegar hún sér stiga eða köttinn og klappar og hlær yfir lífinu sjálfu. 

Það er stundum þegar ég er með hana í fanginu, sérstaklega á nóttunni/snemma morguns og við kúrum, að ég fæ flash back til Völu Mistar. Þegar ég nudda nefinu í dúnamjúkt hárið og kyssi kollinn. Það sem ég gæfi fyrir eitt knús enn, þó það væri ekki nema eitt knús.

Ég er svo þakklát fyrir að á þessum degi fyrir 4 árum, tókum við Valur meðvitaða ákvörðun um að við ætluðum að vera hamingjusöm og lifa lífinu, ekki bara láta það gerast, heldur halda sjálf í stjórnartaumana. Með því að taka þessa ákvörðun hefur verið auðveldara að taka sorgina í sátt og hafa hana sem förunaut með okkur í lífinu.

Það breytir því ekki að stundum er hún bara svo sár að mér finnst ég ekki ná andanum. En sama hversu erfitt það er,  næ ég alltaf þó andanum. Og held áfram. Og fagna lífinu og hversu fallegt lífið mitt er. Hversu ríkt það er af ást og hvað ég er heppin með fjölskylduna mína. Val og stelpurnar okkar, sem eru svo góðar við okkur að það er leitun að öðru eins. 

Ég fagna lífinu í stað þess að festa mig í missinum og hve sár hann er. Því þó sorgin sé okkur góður förunautur, má hún ekki yfirtaka lífið og þá sem eru með okkur núna að skapa nýjar minningar. Því lífið er yndislegt og fullt af litum. Það er á okkar ábyrgð að lita myndirnar eins og við viljum, með þeim sem við viljum. Skapa nýjar mnningar í öllum regnbogans litum.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 16. maí 2023

Vangaveltur 12. október 2017