Vangaveltur 28. september 2018

September er hydrocephalus awareness month, sem á íslensku má þýða sem mánuður sem er tileinkaður vitundavakningu um hydrocephalus. Meðfylgjandi mynd sýnir samskonar shunt og Vala Mist er með - þó ég viti ekki hvernig slangan er á litin, enda breytir það ekki öllu 😉
Slangan fer sem sagt úr heilahólfunum og liggur í fitulaginu framan á henni og endar í kviðnum þar sem líffærin soga til sín vökvann - eins og við gerum öll, eini munurinn er að hún þarf slöngu til að koma vökvanum niður í kvið. Slangan er höfð nógu löng til að endast henni ævina, svo framarlega sem hún verður ekki mikið hærri en 175 cm, þannig að núna er hún "í kuðli" í kviðnum á henni og svo leysist bara úr henni þegar Vala Mist stækkar.
Í dag er ár síðan Vala Mist var í aðgerð þar sem var verið að fjarlægja sýkt shunt, en ég viðurkenni fúslega að ég á í ástar/hatursambandi við þetta hjálpartæki, þar sem að þetta er ekki hættulaus lausn, því það getur sýkst eða stíflast, þar sem þetta er jú aðskotahlutur í líkamanum, lífsnauðsynlegur, en aðskotahlutur engu að síður sem getur skapað ýmsar hættur. Eins og við höfum því miður of nána reynslu af, þar sem hún er með fimmta varanlega shuntið í höfðinu og ekki nema rúmlega eins og hálfs árs.
Ég veit hvað þið eruð að hugsa - ég fer í það að panta spandexið og sauma á hana ofurhetjubúning, því ef ekki hún, veit ég ekki hver á skilið að klæðast slíkum búningi.
Við huggum okkur líka við þá staðreynd að það eru minni líkur á sýkingum eftir því sem hún eldist og byggir upp ónæmiskerfi sem getur drepið bakteríurnar áður en þær fara að valda einhverjum usla. Svo hver dagur er skref í rétta átt.
Ef hydrocephalus er ekki meðhöndlað getur það endað með vökvasöfnun í heilanum sem getur leitt til alvarlegrar fötlunar og jafnvel dauða, þar sem heilinn þolir ekki þrýstinginn sem vökvinn myndar. Þetta er það sem við þekkjum í daglegu tali sem vatnshöfuð.
Það eru til gögn þar sem Hippókrates var að lýsa einkennum vatnshöfuðs og taldi hann þetta vera uppsöfnun vökva sem þyrfti að tappa af. Ekki eru til nákvæmar lýsingar á tilraunum í þá áttina fyrr en árið 1744, en lengi vel tókust þær aðferðir ekki vel og enduðu yfirleitt með dauða vegna sýkinga. Það var um 1881 sem hlutirnir fóru að líta til betri vegar og átöppun á mænuvökva fóru að takast betur, en þá var farið að leggja áherslu á að dauðhreinsa öll áhöld til að minnka líkur á sýkingum.
Það var síðan árið 1893 sem fyrsta shuntið kom til sögunnar sem drenaði mænuvökvann út. Á næstu árum voru fleiri týpur af shuntum fundin upp en bilanatíðni var mjög há, yfirleitt vegna hráefnisins sem þau höfðu úr að spila, sem hentaði ekki innan mannslíkamans. Árið 1949 kom fyrsta shuntið til sögunni sem var með kúluventil, í stað þess að hafa bara slöngu sem leiddi vökvann niður.
Það var verkfræðingur sem sérhæfði sig í brúarsmíðum sem var einn af upphafsmönnum að setja ventla í shuntin, en hann eignaðist barn með vatnshöfuð og fannst fáránleg tilhugsun að ekki væri hægt að stjórna flæðinu á vökvanum, en hann vann við slíkt á hverjum degi. Sumir segja að þetta séu fyrstu skrefin í heilbrigðisverkfræði sem er orðin vel viðurkennd fræði í dag.
Um 1960 varð mikil bylting þegar farið var að nota sílikon í shuntin og eru dæmi um einstaklinga sem eru enn með sín upprunalegu shunt sem voru sett um þetta leyti. Það eru svo ekki mörg ár síðan að forritanleg shunt voru tekin til notkunar, en þá er segull inni í ventlinum sem er hægt að stilla utan frá hve mikið flæði fer niður um slönguna og er Vala Mist með þess háttar shunt.
Nú læt ég staðar numið og vona að þið hafið haft ánægju að fræðast um hydrocephalus og hvernig meðhöndlun þess hefur verið í gegnum söguna.
Eigið góðan dag og gleðilega helgi.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023