Vangaveltur 23. janúar 2019

Fyrir rúmlega ári síðan kenndi mín yndislega Pála Margrét mér að allir gætu stundað jóga, líka súkkulaðielskandi ísæta eins og ég sjálf. Ég hafði alveg áður prófað jóga en ekki fundið mig almennilega í því, en ákvað að gefa því annað tækifæri með nýju hugarfari. Þessa gjöf gaf Pála mér þegar ég þurfti hvað mest á henni að halda, en á þeim tíma lá Vala Mist inni á gjörgæslu vegna sýkingar í shuntinu og Pála opnaði heimili sitt fyrir mér þar sem ég gat ekki sofið með Völu Mist á gjörgæslunni og Barnadeildin var pökkuð.
Síðan þá hefur ýmislegt gerst og þetta hugarfar hefur hjálpað mér gífurlega til að takast á við allskonar áskoranir sem við höfum staðið frammi fyrir.
Núna á föstudaginn mæti ég svo í tíma, sem er í raun ekki frásögufærandi, nema vegna þess að í lok tímans, þegar við erum að fara slaka á og kennarinn segir okkur að hugsa um það sem við erum þakklát fyrir, að það fyrsta sem kemur upp í hugann er að ég sé þakklát fyrir mig sjálfa. Þetta kom jafn eðlilega fram eins og að uppáhaldsliturinn minn er grænn. Mikið sem mér brá - það mikið að ég fann tárin brjótast fram. Eitt augnablik fylltist ég ótta, ég get ekki farið að gráta í sal fullum af fólki, þetta var hvorki staður né stund fyrir það.
Sem betur fer þaut þetta augnablik hratt hjá og ég áttaði mig á að ég mætti bara víst gráta, ég ætti að hlusta á líkama minn og leyfa honum að fá þá útrás sem hann þyrfti þá stundina. Enda hvar væri það meira viðeigandi en einmitt í fullum sal af fólki, sem er allt að ganga í gegnum allskonar, gleði og sorg, sem á það sameiginlegt að gefa sér tíma til að næra sál sína og líkama.
Svo ég bara grét alla slökunina. Ég grét yfir því að vera þakklát fyrir sjálfa mig, yfir því að ég væri hjartahlý og góð, óþolinmóð en á sama tíma svo þolinmóð, fljótfær en samt svo skipulögð, dramatísk en líka yfirveguð. Ég grét af þakklæti yfir að vera ég sjálf - og mikið sem það var dásamlegt. Ég var endurnærð á sál og líkama eftir þessa slökun og er svo þakklát fyrir að hafa leyft mér það í stað þess að birgja það inni.
Ef þið eruð enn að lesa langar mig að biðja ykkur að taka ykkur smá stund, vera góð við ykkur sjálf og hugsa um 3 hluti sem þið eruð þakklát fyrir í fari ykkar, en þetta er eitthvað sem við gerum held ég allt of sjaldan og þurfum að minna okkur á að gera.
Knús á línuna - þið eruð frábær!

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023