Vangaveltur 24. febrúar 2020

Í upphafi árs var ég spurð að því afhverju ég væri að skrifa svona persónulega og deila því með alheiminum, hver væri ástæðan á bak við það. Manneskjunni þótti ég oft heldur persónuleg og hvort ég væri ekki berskjölduð að bera tilfinningar mínar og hugsanir svona á borð.
Ég viðurkenni að ég varð hálf orðlaus og gat ekki svarað miklu, enda hafði ég svo sem ekki leitt hugann að því afhverju ég væri að þessu, heldur er þetta bara eitthvað sem ég geri þegar ég finn þörf til að tjá mig og fá útrás fyrir tilfinningar mínar.
Síðan þá er ég búin að hugsa þetta örlítið og átta mig á, að líkt og flest allt sem við gerum, að þá eru nokkrar ástæður á bak við hvatann að skrifa svona.
Sú fyrsta er mjög sjálfhverf, en það að skrifa svona gefur mér rosalega mikið. Ég get ekki útskýrt útrásina sem ég fæ við að tjá mig svona og hvernig það hjálpar mér að koma reglu á hugsanir mínar og tilfinningar. Einnig finnst mér það styrkja mig að horfast í augu við tilfinningar mínar og við hver skrif finnst mér ég vera sterkari en fyrir þau síðustu.
Önnur ástæðan er fjöldinn allur af skilaboðum sem ég hef fengið frá fólki þar sem það þakkar mér fyrir að koma hugsunum sínum í orð, hvernig skrif mín hjálpa þeim að skilja tilfinningarnar sem það er að upplifa og að koma reglu á þær og hugsanir sínar. Það er ómetanlegt.
Sú þriðja er að ég man hvað mér fannst gott að finna að ég væri ekki ein, hvort sem það var í ferðalaginu að vera foreldri langveiks barns eða foreldri sem syrgir barnið sitt. Því maður upplifir alls konar tilfinningar sem maður er hvorki stoltur af né vill að aðrir viti að maður upplifi, en akkúrat þær tilfinningar er svo mikilvægt að vita að maður sé ekki einn um. Að maður sé ekki slæm manneskja þrátt fyrir að upplifa þær. Að það sé í lagi að upplifa þær og finna. Að taka þær tilfinningar í sátt, til að einfaldlega geta haldið áfram. Því vona ég að þessi skrif mín og reynsla geti hjálpað öðrum sem þurfa á hjálp að halda í því sem þau eru að ganga í gegnum.
Fjórða ástæðan er sú að mér finnst mikilvægt að breyta hugmyndum í samfélaginu um tilfinningar og sorg. Það er nefnilega svolítið tabú að upplifa sorg, hvað þá að tala um hana. Búandi á stað úti á landi, í samheldnu samfélagi þar sem flestir þekkja eða kannst við alla, var nánast gert ráð fyrir að við myndum ekki fara út meðal fólks fyrst eftir að Vala Mist var dáin. Við fengum þónokkur boð frá fólki þar sem það bauðst til að fara í búðina fyrir okkur til að kaupa mat fyrir okkur, sem við ákváðum að afþakka með hlýju.
Við ákváðum að loka okkur ekki af, við vildum halda áfram að lifa lífinu og mættum á viðburði sem við hefðum gert ef Vala Mist hefði ekki verið dáin. Það var ekki auðvelt, en það var okkur mjög mikilvægt. 
Þetta þýddi ekki að við værum að gera lítið úr sorginni, þvert á móti var þetta okkar leið til að gefa henni pláss í líf okkar en halda jafnframt áfram. Eins vona ég að þetta hjálpi fólki að sjá það er ekkert til ein rétt leið til að upplifa eða gera hlutina, heldur á fólk að fá að gera það á sínum forsendum og á sínum hraða.
Það að átta sig á að sorg yrði partur af lífi mínu það sem eftir er, er mikilvægasti lærdómur sem ég gengið í gegnum. Það má vera sorgmæddur og glaður á sama tíma, það er ekkert til sem heitir svart eða hvítt. Sumar af mínum hamingjusömustu stundum hef ég upplifað þegar ég er svo uppfull af sorg að ég næ varla andanum. Því ég leyfi mér að finna, taka í sátt og hreinlega lifa.
En það er eitthvað sem ég hef hugsað mér að gera til hins ítrasta á meðan ég get, að lifa. Að finna. Að njóta. Að bara vera. Vala Mist er sönnun mín fyrir því að lengd lífsins skiptir ekki máli, heldur gæðin sem maður gefur því. 

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023