Vangaveltur 30. ágúst 2020

Stundum á maður daga þar sem ekkert virðist ganga upp. Ég átti þannig dag í gær, eða, hálfgerðan jójó dag. Ég gerði heilan helling en inn á milli helltist yfir mig tilfinning hvað allt væri ómögulegt sem ég væri að gera og væri hreinlega misheppnað.

"Auðvitað kom þetta fyrir mig" 

"Alveg er það týpísk ég að sulla svona"

"Díses, hvað er í gangi?!"

Já, þessar hugsanir flugu í gegnum huga minn af og til í gær þegar mér fannst hlutirnir ekki ganga eins og mér fannst að þeir ættu að gera. Enda hafði ég engan tíma í klúður, ég var með heilan lista af verkefnum sem þyrfti að klára sem ég hafði enga yfirsýn yfir og rúllaði því fram og til baka á milli verkefna og fannst ég ekki ná að gera neitt þrátt fyrir að ég gerði helling. Ég sé það í dag.

Heilt yfir var dagurinn samt alveg ágætur, það var bara þessi drungi sem helltist yfir mig af og til og áttaði ég mig á því í gærkvöldi þegar ég grét úr mér augun yfir bíómynd (sem kom mér algjörlega á óvart því ég hélt að hún ætti bara að vera fyndin en svo spannaði hún allan tilfinningaskalann, amk hjá mér í gær, mæli með Jojo Rabbit) að ég hafði ekki leyft mér að fá útrás fyrir þennan drunga. Ég hafði einfaldlega ekki gefið mér tíma og rúm til að viðurkenna að það væri í lagi að líða illa og ég mætti það alveg, þó það væri ekkert að. Þó að ég gæti ekki eyrnamerkt tilfinninguna einhverri áþreifanlegri afsökun fyrir að líða svona.

Því að stundum líður manni bara illa, alveg eins og að stundum líður manni vel. Það þarf ekkert að vera einhver ástæða fyrir því. 

Eftir að vera búin að gráta því sem samsvarar einum bæjarlæk yfir bíómyndinni fann ég hvað ég "léttist" og leið betur. Því loksins fékk ég þá útrás sem ég þurfti. 

Það merkilega við tilfinningar er að þær koma en þær fara líka. Sem mér finnst rosalega gott að muna, því þá er auðveldara að leyfa sér að vera leið þegar maður þarf þess, því ég veit að sú líðan mun hverfa þegar útrásinni er náð. Með þetta í huga útbjó ég þetta minnnisblað fyrir mig, til að minna mig á að það sé í lagi að líða allskonar, jafnvel þó ekkert sé að og deili því núna með ykkur.







Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023