Vangaveltur 5. ágúst 2020

Mikið væri einfalt ef tilfinniningar væru bara alltaf eins, en það er alveg alls ekki þannig, allavega er sorg bara alls konar. 
Stundum tengist hún manni beint þannig að maður nær varla andanum. Stundum er hún svo yfirþyrmandi að þú sérð ekki að þú náir nokkurn tíman að jafna þig. Stundum veitir sama sorg þér mikla hlýju, gleði og þakklæti þannig að maður brosir í gegnum tárin.
Síðan er það stundin þegar þú horfir á einhvern nákominn þér upplifa sorg. Vanmættið sem því fylgir þegar manni finnst maður ekkert geta gert. Þó er það eina sem þarf er að vera til staðar, í því fylgir mesti styrkurinn. Að finna að maður sé ekki einn. Það þarf engin orð, bara þöglan skilning og viðurkenningu á sorginni. Að það sé í lagi. 
Öðruvísi náum við ekki að lifa með henni, en sorg er eitthvað sem yfirgefur mann aldrei. Því er það að læra að lifa með sorginni nauðsynlegur lærdómur ef við ætlum að leyfa okkur að elska. Sem ég vona að allir leyfi sér, því það er fátt meira gefandi í lífinu.
Í okkar menningu eru jarðarfarir vettvangur til að kveðja þá sem við elskum. Þær eru stund þar sem við gefum okkur sorginni á sitt vald og fáum útrás fyrir tilfinningar okkar. Sem er svo nauðsynlegt og gott. Það er eitt af fyrstu skrefunum sem leyfir okkur að halda áfram með sorginni. Því hefur mér alltaf gott að geta fengið að kveðja fólk við jarðarfarir. Að fá þessa stund, þar sem manni má líða eins og manni líður, engin pressa, maður bara er.
Fyrst eftir jarðarförina hennar Völu Mistar upplifði ég ákveðinn létti, má kalla það spennufall. Síðan upplifði maður kaldann tómleikann þegar hið daglega líf byrjaði á ný. Þá varð missirinn einhvernveginn meira áberandi, öll litlu daglegu smáatriðin sem verða svo áberandi þegar þeim nýtur ekki lengur við. Veraldlegar eigur sem eru allt í einu án eigenda og þú veist ekkert hvað þú átt að gera við.
Og akkúrat á þessum tímapunkti var fólkið í kringum mann tilbúið að halda áfram, því eftir jarðarförina var það búið að kveðja. Mætti segja að það væri búið að haka í þetta box. Sem ég skil vel, ég hef sjálf verið hinum megin við borðið og hakað í nákvæmlega þetta box með hugsuninni um að nú héldi fólk áfram með lífið, því lífið heldur jú áfram. 
Hvernig við höldum áfram með lífið er undir okkur komið. Ég ætlaði nú heldur betur að tækla lífið, verandi þakklát og jákvæð. Sem er gott upp að vissu marki, málið með sorgina er að maður getur ekki spólað yfir neinn kafla, sama hversu erfiður hann er. Sem betur fer stoppaði líkaminn á mér hraðann sem ég ætlaði að ana á og neyddi mig til að stoppa við og horfast í augu við sorgina. Fyrir mig var það nauðsynlegt, en ég skil líka að það þurfa ekki allir að gera það sama.
Það sem hjálpaði mér mest og gerir enn er að skrifa. Skrifa mig burt frá tilfinningunum mínum. Með því að skrifa þær niður, verða þær áþreifanlegri og ég hef betri stjórn á þeim. Oft eru þessi skrif í belg og biðu og meika engan sense svo ég sletti nú örlítið. Með því að skrifa þær niður sé ég þær svart á hvítu og finnst ég hafa vald til að stjórna þeim, í stað þess að þær stjórni mér. Segja má að ég fjarlægist tilfinningarnar.
Stundum, sérstaklega þegar tilfinningarnar eru yfirþyrmandi, les ég þær upphátt. Þannig fjarlægist ég þær enn meir og fæ aðra sýn á upplifun mína. Þetta er ekki auðvelt, yfirleitt er ég svo útgrátin að Niagra á ekki séns í mig. 
Að lokum skrifa ég niður staðhæfingar, les þær upphátt og passa mig á að anda djúpt á milli svo þær sígist alveg örugglega inn. Staðhæfingar á borð við "Það er í lagi að mér líður XX" "Það er eðlilegt að líða XX" "Þú ert ekki vond manneskja að líða XX".
Enn og aftur er ég að skrifa mig í gegnum tilfinningar, en í dag er ég uppfull af þeim og veit hreinlega ekki í hvorn fótinn ég á að stíga, því þær togast svo á.
Ég ákvað að deila skrifunum með ykkur í dag og vona frá innstu hjartarótum að þessar leiðir mínar til að vinna með sorginni geti hjálpað ykkur sem lesið þessi orð, þó það sé ekki nema smávegis.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023