Vangaveltur 4. september2020

 Kær vinkona sendi mér Ted fyrirlestur sem ég hvet alla til að horfa á (hann er á ensku).

Þar fjallar fyrirlesarinn Nora um hvernig sorgin mótar okkur á sama hátt og gleðistundir í lífi okkar og hvernig er jafnvel ætlast til að við höldum áfram og komumst yfir sorgina. Því sorgin eigi ekki að vera partur af lífinu, við eigum að geta skilið hana eftir.

Ég held, líkt og Nora, að þetta sé allt of algengt viðhorf, því eftir að hafa upplifað mikla sorg sjálf, átta ég mig á að sorgin verður alltaf partur af mér. Sorgin hefur mótað mig jafnmikið og jafnvel meira en sumar af mínum hamingjusömustu stundum. Hún hefur fengið mig til að líta í eigin barm, hvernig ég vil raunverulega verja lífinu, tímanum mínum og með hverjum. Horfast í augu við hluti sem ég sé eftir og taka ábyrgð á þeim. 

Sorgin hefur hjálpað mér að vaxa og þroskast í þá manneskju sem ég er í dag og mér þykir virkilega vænt um þá manneskju. Ég er mun betri og skilningsríkari við sjálfa mig en ég var áður. Ég skil að ég er góð manneskja þó ég hafi gert mistök og hugsi stundum ekki fallega. Ég skil að ég er mannleg og leitast eftir því að hlúa að kostum mínum í stað galla. Ég skil að ég get valið hvert ég beini hugsunum mínum, þó það sé stundum alveg rosalega erfitt.

Ég hef fengið að heyra að fólk hafi orðið rosalega fegið að það geti talað "venjulega" í kringum mig eftir að Vala Mist dó. Að hlutirnir verði ekki vandræðalegir við það að segja eitthvað "vitlaust". Því ég tali um Völu Mist alveg jafn eðlilega og ég tali um Ásrúnu.

Málið er að ég er ekki endanlega búin að kveðja Völu Mist og hugsa að ég geri það aldrei. Hún er alltaf hjá mér, ég ber hana með mér hvert sem ég fer. Alveg eins og ég tala stundum ennþá við ömmu þegar ég er að sauma eða við tengdapabba þegar ég fer í berjamó eða reyni að leysa Sudoku þraut. Því fólkið sem hefur staðið hjarta mínu næst er enn hjá mér. Enda átta ég mig á að stundum tala ég um fólkið mitt í nútíð, alveg ómeðvitað og óvart.

Auðvitað halda allir áfram með lífið á sinn hátt en ég vona að allir sem hafa upplifað mikla sorg nái að lifa með henni og það sem hún gefur í stað þess að berjast við að yfirstíga hana.




Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023