Vangaveltur 16. desember 2020

Jólin nálgast óðfluga og nú með allt öðrum hætti en við erum vön. Í stað þess að hitta alla, knúsa, fara á jólatónleika, jólahlaðborð og jólahitt, er knúsið bannað og þú mátt hitta 10 manns. Jólatónleikar eru þó enn í boði, með því að nýta þá frábæru tækni sem hefur óneitanlega hjálpað til í þessum heimsfaraldri, þó það sé annar bragur á, er það svo sannarlega kærkomin skemmtun.

Þetta tekur mismikið á fólk, sumir eru við það að springa á meðan aðrir springa yfir því að hinir séu að springa yfir því og eigi að hætta þessu væli. 

Við þá sem skilja ekki "vælið" í þeim sem finnst þetta erfitt langar mig að biðja um að nota góðmennsku, því öðruvísi komumst við ekki í gegnum þetta. Það að setja sig í spor annarra er góður lærdómur og víkkar sjóndeildarhringinn. Ekkert okkar er eins og því ekki skrítið að við upplifum hlutina ekki eins.

Við þá sem finnst þetta virkilega erfitt vil ég segja að ég skil það ósköp vel og í staðin fyrir að bæla það niður, leyfðu þér að finnast þetta leiðinlegt, ósanngjarnt og glatað. Því þetta er það. Þessi árstími gengur út á samveru og gleði og verður það svo extra áberandi þegar það ekki má. Lykillinn er bara að festast ekki í því að finnast þetta leiðinlegt, ósanngjarnt og glatað, heldur fá útrás fyrir þær tilfinningar og líta svo á hvað þú getur verið þakklát/ur fyrir, sem ég vona að þú getir fundið hjá þér. Síðan getur þú lagt meira upp úr þeim tilfinningum og jafnvel hugsað út fyrir kassann hvernig þú getur ræktað þær enn meira. Notað tæknina og haft fjarspjall. Sent óvæntan glaðning eða orðsendingu til fólk sem þú saknar þess að geta ekki hitt.

Ég viðurkenni að ég er mjög ströng á jólakúlunni minni sem inniheldur okkar nánustu ættinga og er ég búin að ákveða að halda henni fram yfir áramót. Ég átta mig vel á því hver ástæðan er þar á baki. Ég hef nefnilega upplifað jól þar sem ég var ein inni á sjúkrahúsi, skíthrædd um litlu dótturina sem óx í móðurkviði og ég vissi ekki hvað framtíðin bar í skauti sér. 

Aðfangadagur þar sem ég hitti Val og Ásrúnu, þá 5 ára, í 40 mínútur frammi á biðstofu þar sem hún mátti ekki koma inn á kvennadeildina því hún var ekki orðin 12 ára og RS vírusinn í hámarki. Það reyndi á þolrifin á bæði móður og dóttur, þar sem móðirin var knússjúk og meir, á meðan dóttirin var við það að springa af barnslegri gleði af tilhlökkun til kvöldins og gat helst ekki setið kyrr, sem ég er svo þakklát fyrir og man ég hve vidjóin af henni yljuðu mér er ég lá í sjúkrarúminu inni á stofu. Elsku Valur stóð eins og klettur við okkur mæðgur, studdi mig og veitti Ásrúnu gleðileg jól.

Ég átta mig á að þó að jólin 2016 hafi verið ein mest krefjandi jól sem ég hef upplifað, gætu þau verið verri. Ég fékk nefnilega að hitta fólkið mitt, þó það væri bara í stutta stund - og knúsa það. Ég hafði dásamlegar ljósmæður í kringum mig sem knúsuðu mig í gegnum kvöldið, höfðu hlýjan faðm, öxl til að gráta á, eyru til að hlusta og skilning þegar ég bara þurfti einhvern til að þegja með.

Ef ég myndi smitast af veirunni, ætti ég ekki sömu sögu að segja, engin væru knúsin eða hittingar þó stuttir væru og ef það er eitthvað sem við erum búin að læra, er það að veiran gerir ekki mannamun og hef ég heyrt of margar sögur af fólki sem hafði ekki hugmynd um hvernig það smitaðist því það var að passa sig.

Ég hef líka upplifað jól þar sem við vorum nýbúin að missa elsku Völu Mist. Við fengum að halda jarðarför og erfðadrykkju þar sem við gátum knúsað þá sem við vildum knúsa og þeir sem vildu knúsa okkur, höfðu tækifæri til þess. Missir ástvina og fyrstu jól eftir að hafa missinn geta svo sannarlega tekið á og viðurkenni ég hér með, að ég man ekki eftir jólunum 2018, þau eru einfaldlega í móðu. Það sem ég þó man, er ástin sem ég á með fólkinu mínu sem er enn hér með mér.

Því finnst mér tilhugsunin að halda jólakúlunni minni og að vera heima, með fólkinu sem ég elska mest, bara alls ekki slæm.

Hvernig líður þér fyrir jólin í ár?

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023