Vangaveltur 5. júní 2021

Í gær hittum við fjölskyldan konu sem við höfum ekki hitt síðan síðasta sumar, sem er í raun kannski ekki óvenjulegt á tímum Covid. En það sem sat með mér var ein lítil setning sem hún sagði við mig þegar hún horfði á dóttur mína: "Ég sé svo mikinn mun á henni, það er svo miklu bjartara yfir henni". Eitt augnablik átti ég erfitt með að halda aftur af tárunum og ég fylltist hlýju innra með mér. Hlýju og létti. Ég þakkaði henni fyrir hlý orð og hve mikils virði þau væru mér. Því leiðin hingað er ekki búin að vera einföld og ég veit vel að vegferð okkar er ekki lokið, frekar en annarra sem lifa lífinu.

Ég hef oft fengið að heyra hve vel við stöndum okkur í þessu öllu, við séum yfirveguð og skynsöm. Ykkur að segja líður mér oft á tíðum alls ekki þannig, alveg ekki. Meira svona eins og ég sé með allt niðrum mig, veit ekki í hvorn fótinn ég á að stíga, segi eða hugsa óviðeigandi hluti og missi kúlið í tíma og ótíma. Tala nú ekki um tárin sem streyma yfirleitt á óheppilegasta tíma. Rauður nebbi í matvöruversluninni er ekki það skemmtilegasta í heimi þegar maður stendur fyrir framan barnamatinn en þar til nýlega hafa andlitsgrímurnar bjargað mér ágætlega. Ekki að þetta gerist reglulega, en stundum bara hellist eitthvað yfir mann.

Að takast á við mína eigin sorg á meðan ég rembist við að vera til staðar fyrir dóttur mína getur oft á tíðum verið strembið. Ég held að það hve opin við erum hvert við annað um sorg okkar held ég að hafi hjálpað okkur gífurlega. Það að Ásrún sjái að við eigum stundum erfitt líka hjálpar henni, því blessunarlega lítur hún upp til okkar. Það að sjá okkur viðurkenna okkar tilfinningar hjálpar henni að takast á við það að henni megi líka líða stundum illa án þess að hafa hugmynd um afhverju, því stundum bara hellist eitthvað yfir mann, eitthvað triggerar mann sem maður getur ekki sett puttan á. Það bara gerist.

Og það er bara allt í lagi. Það er líka í lagi að það komi fyrir að maður snappi eða missi kúlið. Mestu skiptir þá að horfast í augu við það og biðja fólkið í kringum sig afsökunar sé ástæða til þess. Segja afhverju maður snappaði, taka eftir því og læra af því. Þá er maður betur í stakk búinn tækla aðstæður betur næst þegar eitthvað triggerar mann.

Já, ég segi næst, því ég veit að þetta mun fylgja okkur svo lengi sem við lifum. Þannig að það að fá að heyra að það sé sjáanlegt að dóttur minni líði betur núna en fyrir ári síðan er mér ómetanlegt. Það segir mér líka að þetta kemur allt saman, með öllum þeim hliðarsporum, tárum og hlátri sem sorgin gefur okkur.


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023