Vangaveltur 18. nóvember 2021

Að kvöldi 18. nóvembers 2018 fór Vala Mist í hjartastopp og eftir endurlífgunartilraunir tóku við dagar á gjörgæslunni sem enduðu á að við þurftum að kveðja litla engilinn okkar.
Þessi dagur læddist aftan að mér í ár og var ég hálf ómöguleg fram eftir degi, illa sofin og troðandi marvaða ef svo mætti að orði komast.
Við Ásrún áttum síðan miða á leikritið Ronju Ræningjadóttur hjá Leikfélagi Sauðárkróks, sem ég bókaði viljandi þennan dag því ég þekki sjálfa mig og vissi að svona afþreying væri rétta meðalið fyrir mig.
Á leiðinni á sýninguna snjóaði "jólasnjó" og smitaði Ásrún mig enn einu sinni af sinni einskæru lífsgleði þar sem hún leit til himins og fékk snjóinn í andlitið, hló, sagðist elska svona snjókomu, leit til mín og spurði "mamma, finnst þér ekki lífið dásamlegt?"
Og ég áttaði mig á að jú, mér finnst lífið svo sannarlega dásamlegt, með allri þeirri sorg og gleði sem því fylgir. Ég fann þungann lyftast af mér og lífsgleðina hellast yfir mig, því þrátt fyrir sorgina, megum við ekki gleyma því að njóta lífsins með þeim sem enn eru með okkur og gefa lífinu gildi.
Ef sorgin er farin að taka of mikið vægi af þeim sem eru ennþá með okkur, held ég að við þurfum að líta í eigin barm og spyrja hvort það sé þannig sem við viljum lifa lífinu. Þar sem við missum af þeim sem eru enn hjá okkur. Er þá ekki sorgin farin að stjórna of miklu í stað þess að eiga bara sitt réttmæta pláss? Auðvitað þarf maður útrás fyrir sorgina en hún má ekki yfirtaka lífsgleðina.
Sorgin verður alltaf partur af mínu lífi og fyrir það er ég þakklát, en enn þakklátari er ég fyrir fólkið mitt sem er enn með mér og gefur lífinu mínu liti regnbogans með öllum þeim töfrum sem þeim fylgja.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023