Vangaveltur 21. desember 2017


Í dag er 21.desember, sem er dagsetning sem mun verða föst í huga mér það sem eftir er býst ég við.
Í dag er ár síðan við komumst að því að það væri eitthvað að hjartanu hennar Völu Mistar þegar ég ætlaði að skreppa í mæðraskoðun.
Ekki vissi ég á þeirri stundu að ég myndi ekki koma inn á heimili mitt aftur fyrr en í maí árið eftir, vera búin að horfa uppá barnið mitt deyja næstum því og fara í nokkrar aðgerðir upp á líf og dauða, sem er líklega ágætt, ég veit ekki hvort ég hefði komist í gegnum þetta ef svo væri.
Sem er reyndar ekki satt, ég hefði alveg komist í gegnum þetta, því það bara þurfti. Oft hef ég hugsað að ég bara geti ekki meir, hvort það mætti ekki bara enda þetta, því það væri svo miklu auðveldara, hræðslan gerir mann svo úrvinda.
Síðan hef ég eytt góðum tíma í að skammast mín fyrir að hafa hugsað þetta, hvers konar manneskja er það eiginlega sem hugsar um það að það væri auðveldara að barnið sitt myndi deyja?
Síðan átta ég mig á því að ég er sú manneskja, og ég er góð, hjartahlý og bara alls ekki gallalaus. Stundum er ég sjálfselsk, fattlaus og hreinlega gleymi því að hugsa.
En eitt sem ég veit að einkennir mig er hve mikið ég elska fólkið mitt, skilyrðislaust af öllu hjarta. Ég get hreinskilningslega sagt að það sé það sem er búið að koma mér í gegnum þetta og ætla ég að fullyrða að með kærleikann að vopni getur maður sigrað allt, sama hversu ómögulegt og erfitt það virðist vera á þeirri stundu.
Svo er ég líka alveg einstaklega dramatísk, eins og þið sjáið á þessum skrifum mínum. En ég ætla að leyfa mér það, því það eru að koma jól og eftir daginn í dag fer daginn að lengja – og ef það er ekki ástæða til að gleðjast og láta tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur veit ég ekki hvað.
Á þessum nótum sendum við í Áshildarholti, ykkur öllum okkar bestu jólakveðjur og vonum að þið njótið hátíðarinnar í faðmi ástvina.
Við erum ykkur öllum óendanlega þakklát fyrir styrkinn, skilninginn og hlýjuna sem þið hafið sýnt okkur undanfarið ár, við erum virkilega rík að eiga ykkur öll að.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023