Minningarorð frá Hildi á leikskólanum

Elsku litla hetjan og vinkona mín hún Vala Mist er dáin.
Ég kynntist Völu Mist í ágúst þegar hún byrjaði hjá okkur í Lind í leikskólanum. Við þekktumst aðeins í þrjá mánuði en mér fannst ég hafa þekkt þig alltaf. Á þinni stuttu ævi varstu búin að ganga í gegnum allt of margt og miklu meira en fólk gerir á heilli ævi. Þú bræddir alla sem sáu þig og sendir kossana þína. Þú varst ákveðin ung dama og vissir alveg hvað þú vildir, hvaða dót þú vildir og hvert þú ætlaðir. Útivera í snjónum var til dæmis ekki uppáhalds en að horfa út um gluggann, það fannst þér toppurinn. Þú elskaðir söng og klappaðir mikið með. Þú varst búin að taka miklum framförum og dafnaðir vel í leikskólanum. Við vorum bjartsýn á komandi tíma. Það var því mikið áfall þegar fréttir um veikindi þín og andlát barst okkur. Ég get ekki ímyndað mér sorgina sem fjölskyldan öll gengur í gegnum. Megi allar góðar vættir styrkja ykkur á þessum erfiða tíma elsku Valur, Lilja og Ásrún. Takk fyrir að treysta mér fyrir gullmolanum ykkar. Hún kenndi mér margt og á hún stað í hjarta mínu um ókomna tíð.
Takk fyrir samveruna Vala Mist.
þín vinkona Hildur

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023