Vangaveltur 21. desember 2018


Í dag er 21.desember, sem hjá flestum þýðir að sé stysti dagur ársins, eftir daginn í dag fer sólin að hækka á lofti.
Þetta er líka dagurinn sem hjartsláttaróreglan hennar Völu Mistar kom í ljós í mæðraskoðun fyrir tveimur árum og umturnaði lífi okkar svo um munaði.
Facebook var að minna mig á orð sem ég skrifaði í fyrra, sem olli því að ég settist niður og þurfti að koma tilfinningum mínum aðeins niður á blað, sem ég ætla að fá að deila með ykkur.
Í fyrra skrifaði ég meðal annars:
„Oft hef ég hugsað að ég bara geti ekki meir, hvort það mætti ekki bara enda þetta, því það væri svo miklu auðveldara, hræðslan gerir mann svo úrvinda. Síðan hef ég eytt góðum tíma í að skammast mín fyrir að hafa hugsað þetta, hvers konar manneskja er það eiginlega sem hugsar um það að það væri auðveldara að barnið sitt myndi deyja? Síðan átta ég mig á því að ég er sú manneskja, og ég er góð, hjartahlý og bara alls ekki gallalaus.“
Ég sé ekki eftir þessum skrifum, þau eru jafn sönn í dag og þau voru fyrir ári síðan, munurinn er þó að í dag er ég að horfast í augu við þann raunveruleika að Vala Mist er dáin. Ég fæ hana ekki tilbaka sama hversu mikið ég óska mér þess, sem ég geri þó enn á hverjum degi og mun líklega gera á hverjum degi það sem eftir er.
Það eru svo margar tilfinningar sem brjótast um innra með mér að stundum er það bara of mikið, en þar sem ég viðurkenni þær allar og leyfi þeim öllum að taka sitt pláss hefur þetta gengið ágætlega. Þegar fólk spyr mig hvernig mér líður og ég svara að mér líði vel, að við höfum það gott, meina ég það frá innstu hjarta rótum, því það er raunin. Því manni getur liðið vel og haft það gott þó maður sé að syrgja, bara ef maður leyfir sér það.
Það sem ég hef samt átt hvað mest erfiðast með að upplifa er allur léttirinn. Seinustu tvö ár hafa ekki verið auðveld þó þau hafi verið góð og uppfull af kærleika og ást. Það er ekki fyrr en við þurfum ekki lengur að gera allt sem var orðinn partur af okkar daglega lífi að maður áttar sig á undir hve miklu álagi við vorum búin að vera. Álagi sem var nánast ómannlegt, en saman gátum við það. Enda voru verðlaunin ómetanleg, hjartahlý stelpuhnáta sem stal hjarta manns með hverjum kossi sem hún sendi manni – og þeir voru ófáir.
Það er ekkert leyndarmál að ég vildi óska þess að ég væri ennþá undir þessu álagi þó það væri bara einn koss sem ég fengi í verðlaun. En í stað þess að festa mig í óskum og samviskubiti yfir að upplifa létti, ætla ég að vera þakklát fyrir léttinn og allt sem hann gefur mér. Því ég er þakklát fyrir lífið mitt, fólkið mitt, sjálfa mig og það sem ég á. Einnig þarf ég ekki annað en að loka augunum til að fá einn koss sendann frá elsku hjartadrottningunni, því alltaf verður hún hjá mér í hjarta mér.
Að lokum vil ég óska ykkur gleðilegra jóla, ég bið ykkur um að knúsa fólkið ykkar vel og rækilega í raunheimum, og minnast þeirra sem þið getið ekki knúsað og knúsað þau í huganum. Takk fyrir að gefa mér vettvang til að tjá mig, það er stærsta gjöfin sem þið getið gefið mér og er ég innilega þakklát fyrir.
Með þessum skrifum fylgir ein uppáhalds myndin mín af Völu Mist, þar sem hún er í miðjum klíðum að halla undir flatt við eldhúsborðið, en henni fannst það einstaklega skemmtilegur leikur sem var því oft farinn í.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023