Vangaveltur - Minningarorð 8. desember 2018

Elsku hjartans Vala Mist mín, elsku ljósið mitt.
Ég trúi því eiginlega ekki að ég sé að skrifa þessi orð og veit hreinlega ekki hvar ég á að byrja. Svo ég ætla að byrja á deginum úti í Svíþjóð, daginn sem ég ákvað að vera þakklát fyrir eitthvað á hverjum einasta degi, sama hversu stórt eða smátt það væri. Því ég hef svo margt að þakka þér, því þú hefur gefið mér svo margt.
Þakka þér fyrir að leyfa mér að elska þig og elska mig óskilyrðislaust til baka. Það að upplifa slíka ást er ómetanlegt.
Þakka þér fyrir alla kossana sem þú sendir mér, öll brosin, knúsin og að leyfa mér að hugga þig þegar þú þurftir á því að halda.
Þakka þér fyrir að hafa svo mikinn áhuga á lífinu að það var full vinna að sitja með þig í sófanum eða að halda á þér, því alltaf vildir þú halda áfram.
Þakka þér fyrir að kenna mér að sjá hve sterk ég get verið þegar á reynir og að kenna mér að leyfa fólki að hjálpa mér og gefa mér þannig styrk.
Þakka þér fyrir að leyfa mér að sjá að allar tilfinningar eiga sinn stað og stund og sama hversu erfitt það er, að það sé í lagi að upplifa þær.
Að lokum, þó það sé það erfiðasta sem ég hef gert, langar mig að þakka þér fyrir að kenna mér að ég geti lifað án þín og að ég geti verið hamingjusöm og betri manneskja þrátt fyrir að þú sért ekki meðal okkar í lifandi lífi, en það var eitthvað sem ég taldi vera óhugsandi á meðan þú lifðir.
Ég veit að þú verður með mér alla daga það sem eftir er og mundu að mamma mun aldrei hætta að elska þig.
Þúsund kossar elsku skotta
Þín mamma Lilja

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023