Vangaveltur 1. febrúar 2019


Alveg frá því að Ásrún byrjaði í leikskóla hef ég verið alveg rosalega þakklát fyrir hve góður leikskólinn er hèrna á króknum. Enn efldist þakklætið þegar Vala Mist byrjaði svo í leikskólanum. Starfsfólkið er frábært, leggur mikinn metnað í skólastarfið og maður finnur hve vænt þeim þykir um stelpurnar okkar.
Enda leið báðum stelpunum okkar alveg rosalega vel í leikskólanum og höfðu yfirleitt ekki tíma til að kveðja því það lá svo mikið á að komast inn á deild í faðm starfsmannana. Svo við foreldrarnir gátum haldið áfram áhyggjulaus út í daginn, jafnvel það áhyggjulaus að maður kom of seint að ná í dömurnar 🙈 Það að upplifa slíkt traust varðandi það dýrmætasta sem maður á er ekki sjálfsagt og er í raun ómetanlegt.
Einnig er ómetanlegt að fá dásamleg listaverk heim, sem við myndum ekki fá nema vegna áðurnefnds yndislega starfsfólks. Í þeim felast minningar sem eru ákaflega dýrmætar 💕
Efri myndin er eftir Ásrúnu og sú neðri eftir hana Völu Mist. Báðar voru þær um eins og hálfs árs þegar þær sköpuðu þessi fallegu listaverk. Það er mér ómetanlegt að eiga þessi verk eftir þær og geta haft þau saman.
Því sendi èg mínar dýpstu þakkir til ykkar, sem hafa hugsað um stelpurnar okkar (og gera enn, þakklæti mitt er nú einnig farið að streyma í grunnskólann á króknum þar sem Ásrún blómstrar) á meðan við sinnum öðru, þið eruð frábær, aldrei gleyma því.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023