Vangaveltur 22. mars 2019

Um daginn helltist yfir mig sorg, það mikil að ég náði varla andanum. Það að Vala Mist væri dáin skall á mér af fullum þunga og mér fannst ég ekki ná að yfirstíga það.
Mikið sem mér brá, lífið var komið í nokkuð eðlilegar skorður og við farin að ná takti í hinu nýja daglega lífi. Ég hélt að ég væri einfaldlega komin lengra í sorgarferlinu en það að missa öll spilin úr hendinni og hafa ekki orku í neitt.
Þennan sama dag rakst ég á grein á internetinu sem hjálpaði mér gífurlega að skilja hvernig sorg virkar, a.m.k. í mínu tilfelli, því vildi ég deila þessu með ykkur. Ég setti inn myndir með færslunni til að útskýra málið betur.
Á myndunum sjáið þið kassa með bolta inn í og sársauka/sorgar-hnapp. Í upphafi er boltinn risastór og fyllir nánast upp í kassann, þannig að þú getur eiginlega ekki hreyft kassann án þess að boltinn ýti á hnappinn. Hann skoppar um í kassanum og ýtir á hnappinn aftur og aftur. Þú hefur enga stjórn á því og sársaukinn blossar upp í hvert sinn. Stundum er það svo mikið að það virðist vera óyfirstíganlegt.
Þegar tíminn líður minnkar boltinn og ýtir sjaldnar á hnappinn, en þegar hann gerir það, er það alltaf jafn sárt. Það að boltinn sé minni hjálpar þér í þínu daglega lífi því þú átt auðveldara með að takast á við lífið. Gallinn er hins vegar sá að boltinn ýtir á hnappinn þegar þú átt síst von á því. Hjá flestum mun boltinn alltaf vera til staðar. Hann ýtir sjaldnar á hnappinn og þú hefur tíma til að jafna þig á milli smella, ólíkt því þegar boltinn var stór og fyllti nánast út í kassann.
Er þetta ein besta lýsing á sorg sem ég hef heyrt og jafnaði ég mig á áfallinu yfir því hve þungt sorgin helltist yfir mig. Því það er bara í lagi. Ég veit líka að ég er hamingjusöm og ánægð með lífið mitt þó svo að boltinn ýti af og til á hnappinn minn, það er bara eðlilegt að hann sé til staðar þegar um er að ræða söknuð til manneskju sem ég hélt að ég gæti ekki lifað án. Ég mun alltaf elska Völu Mist og gerir það mig að betri manneskju á hverjum degi.
Fyrir það er ég þakklát.
Ég óska ykkur allra góðrar helgar, bið ykkur um að lifa í núinu, njóta þess og knúsa fólkið ykkar.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023