Vangaveltur 10. maí 2019

Ég fann þegar ég vaknaði í morgun að boltinn hefði ýtt heldur hressilega á hnappinn minn. Vekjaraklukkan tók mig nefnilega frá andartaki þar sem ég knúsaði litlu dúlluna mína og néri nefinu í mjúku hárinu, en það sem hún hafði silkimjúkt hár 💞
Það er nokkuð síðan ég hef fundið fyrir svona djúpum söknuði, en ólíkt áður, þótti mér vænt um söknuðinn, þar sem ég skil hann. Ég fór á fætur, skutlaði Val og Ásrúnu í vinnu og skóla, kom heim, fékk mér morgunmat, sökkti mér í minningar og bara grét. Ég leyfði mér að finna til, að melta sársaukann og fyrr en varði kviknaði gleði í brjósti mínu við að fara í gegnum minningarnar og stundirnar sem ég átti með henni elsku hjartans Völu Mist minni. Því ástin sem henni fylgdi var svo dásamleg og einlæg.
Ég áttaði mig á að mér þykir vænt um þennan söknuð og það sem hann gefur mér, því hann er búinn að móta mig í að vera manneskjan sem ég er í dag. Með því að viðurkenna hann og hlúa að honum, styrkir hann mig. Hann mun vera partur af mér það sem eftir er og er ég þakklát fyrir að vera sátt við þennan part af mér.
Útgrátin, meir og sæl, byrjaði ég svo vinnudaginn klukkan níu – en þetta ferli, ef svo mætti að orði komast, tók ekki klukkutíma, einfaldlega af því að ég leyfði því að koma í stað þess að bæla það niður. Og ég er búin að eiga dásamlegan dag, og ég vona að það sama gildi um ykkur.
Takk fyrir að gefa mér vettvang til að fá útrás, takk fyrir að lesa

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023