Vangaveltur 12. janúar 2020


Í dag hefði elsku Vala Mist orðið 3 ára. Það kom eilítið aftan að mér hvað mér brá við það, því hún var svo lítil þegar hún dó en í dag væri hún orðin að krakka, þar sem allt gerist svo hratt á þessum árum.
Við leyfðum Ásrúnu að ráða för hvernig við myndum haga deginum, en vegna veðurguðanna ákváðum við að halda okkur bara heima og vera ekki á flakki.
Við vörðum því deginum saman að skoða og leika með dótið hennar Völu Mistar, minnast hennar, spila og njóta samverunnar. Einnig fann ég að ég var loksins tilbúin að skoða myndir og myndbönd sem við fengum frá leikskólanum og vorum við öll til í að hjúfra okkur í sófanum og skoða það saman. Mikið sem það var dásamlegt, sérstaklega myndböndin sem minntu okkur á það hversdagslega og hvernig hún lét ekkert stoppa sig 💕
Í dag sannaðist enn og aftur fyrir mér að þó að hlutir geri verið erfiðir og sárir, geta þeir á sama tíma verið góðir og gefandi, því akkúrat þannig var dagurinn í dag.
Èg fer því þakklát og sátt í rúmið í dag. Þakklát fyrir að hafa tekið þá ákvörðun að halda upp á daginn og njóta hans þrátt fyrir hnútinn sem það myndar einnig í hjarta mér. Í fullkomri sátt upplifi ég þessar gagnstæðu tilfinningar á sama tíma og finn að þær báðar gefa mér ást.
Á þessum nótum kveð èg hinn fallega ljósadag, þar sem èg minnist hnátunnar minna kátu, sem bræðir hjarta mitt enn á hverjum degi.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023