Vangaveltur 31. júlí 2017


Sæl öllsömul. Síðastliðinn miðvikudag varð Vala Mist mjög lasin, hún hélt engu niðri og fann greinilega mikið til. Við drifum okkur upp á sjúkrahús á króknum þar sem hún var vandlega skoðuð og ákváðu þau að senda hana norður á Akureyri í frekari rannsókn. Við fórum þangað með sjúkrabíl þar sem barnalæknar og hjúkrunarfræðingar tóku á móti okkur.
Viðtóku dagar sem fóru í bið og endalausar rannsóknir, blóðprufur, rönken, sneiðmyndatökur, ómskoðanir og heilalínurit. Við fundum að við vorum í góðum höndum og hvað mannauðurinn í heilbrigðiskerfinu okkar er ómetanlegur.
Þar sem ekki fannst hvað amaði að vorum við send áfram á Barnaspítalann með sjúkraflugi á föstudaginn og fórum við í ennfrekari rannsóknir þar sem kom í ljós að shuntið í höfðinu var hætt að virka og væri stíflað, svo að þau töppuðu af mænuvökva um kvöldið og þá opnaði Vala Mist augun almennilega í fyrsta sinn síðan á aðfaranótt miðvikudags.
Hún fór svo í aðgerð á laugardaginn þar sem hún fékk nýtt shunt, aðgerðin gekk vel og er hörkutólið okkar öll að koma til og byrjaði daginn í dag á því að hjala og hlæja (svona eftir að foreldrarnir gáfu henni að borða).
Við vonum svo bara núna að þetta shunt sé komið til að vera og verði til friðs.
Sendum góðar kveðjur af Barnaspítalanum, Lilja og Valur.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023