Vangaveltur 14. mars 2020

Í morgun vaknaði ég við það að Ásrún skreið upp í til að kúra bara smá áður en hún myndi byrja daginn. Mikið sem ég er þakklát fyrir ástina sem hún gefur mér skilyrðislaust og leyfir mér að elska sig til baka. Þar sem ég byrjaði daginn á þakklæti áttaði ég mig allt í einu hvað ég er full af þakklæti þessa dagana, sem er virkilega mikilvægt í allri þeirri óvissu sem ríkir um þessar mundir.
Ég er þakklát fyrir heilbrigðiskerfið og hve vel er tekið á covid-19. Ég er þakklát fyrir upplýsingafundi og fólki í framlínu, sem virðist vera með óþrjótandi orku og halda áfram að leiða okkur öll í gegnum þetta. Ég er þakklát fyrir að þau taki erfiðar en mikilvægar ákvarðanir þrátt fyrir sérskipaða sérfræðinga í hverju horni. Ég er þakklát fyrir að ég tek ekki mark á þessum sérskipuðu sérfræðingum heldur næ að halda ró minni og hugsa rökrétt. 
Ég er líka þakklát fyrir að þurfa ekki að hafa áhyggjur af Völu Mist og veit að það er ein af ástæðunum fyrir að ég næ að halda ró minni og hugsa rökrétt. Ég væri mun hræddari ef hún væri enn á lífi og þá er hætta á að rökhugsunin fljúgi út um gluggann. Ég er virkilega þakklát fyrir að átta mig á því og geta því skilið fólk betur sem er virkilega hrætt, því það er svo lýjandi að vera hræddur, það fyllir mann þreytu, kvíða og leiða. Með því að fyllast samkennd með þessu fólki dæmi ég það ekki, heldur styð það, skil afhverju það virðist spyrja sömu spurninganna aftur og aftur og reyni eftir minni bestu getur að veita því hlýju - því nákvæmlega þannig sigrumst við á hræðslu, með hlýju, skilning og  samtali. Ekki með því að hrista höfuðið yfir hræðslunni og segja að maður eigi ekki að láta svona.
Ég er þakklát fyrir að ég hugsa um samfélagið sem heild, að við séum að ganga í gegnum þetta öll saman, það er ekkert ég eða þú, heldur við. Saman getum við lágmarkað skaðann af þessari veiru. Saman getum við passað upp á fólkið okkar sem þarf mest á því að halda.
Að lokum er ég þakklát fyrir að finnast fyndið að fólk hamstri klósettpappír og hafa nógu mikinn húmor fyrir sjálfri mér þegar ég athuga klósettpappírsstöðuna heima við - sem segir mér að umræða í samfélaginu hefur svo sannarlega áhrif á mann hvort sem manni líkar betur eða ver. Því skulum við einbeita okkur að því að hafa hana á rólegu nótunum, hlusta á fagfólkið okkar sem er að leggja sig allt fram og ekki gleyma því að halda áfram að lifa.

Ummæli

  1. Þó ég þekki þig ekki hef ég ,,verið svo heppin" að fá að fylgjast með lifshlaupi þínu undanfarin ár. Skrif þín eru mannbætandi og fá mann til að skilja, og hugsa á góðan hátt. Hugsa oft til þín og hennar Völu þinnar. Sendi þér hlýja kærleikskveðju með þökk fyrir að deila tilfinningum og hugsunum svo fallega með okkur. Farðu vel með þig.❤

    SvaraEyða
  2. lærar þakkir fyrir skrifin þin ja eg veit hver þu ert en þekki þig ekki personulega nema mer finst eg þekkja þig og ykkur i gegnum skrifin þin sem mer finst gott að lesa atti að vera k þarna fremst hefur misfarist kæra fjoldskylda mikil goð kveðja til ykkar unga kona þu ert mognuð

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023