Vangaveltur 22. mars 2020

Áður hef ég sagt ykkur frá því að ég tók meðvitaða ákvörðun um að vera þakklát fyrir eitthvað á hverjum degi og breyta þannig hugsanagangi mínum. Þessa ákvörðun tók ég þegar við vorum úti í Lund með Völu Mist og þeim rússíbana sem veran þar var.
Núna er mikil óvissa í samfélaginu og fólk veit oft ekki í hvern fótinn það á að stíga. Nú á dögunum átti ég samtal við góða konu sem sagði við mig hve heppin ég væri að hafa tekið þessa ákvörðun, þ.e. að vera þakklát, fyrir svona löngu og því kannski betur í stakk búin að takast á við óvissuástandið sem ríkir. Ennfremur sagðist hún dáðst að mér að hafa getið verið svona yfirveguð og tekið þessa ákvörðun.
Ég viðurkenni að ég varð hálf orðlaus, því yfirveguð er seinasta orðið sem mér dettur í hug þegar ég hugsa til stundarinnar þegar ég ákvað að ég ætlaði að vera þakklát, en auðvitað vissi hún það ekki. Þegar ég lít til baka átta ég mig samt á því að þakklætisgleraugun voru komin mun fyrr upp hjá mér, en í dag ætla ég að segja ykkur frá stundinni þegar ég tók ég meðvitaða ákvörðun um að vera þakklát. 
Til að gefa ykkur sem besta mynd af þessari stund, ætla ég að deila með ykkur dagbókarfærslu sem ég skrifaði fyrir sléttum þremur árum, þann 22. mars 2017, morguninn eftir að Vala Mist lést næstum í fyrsta skipti. Þið sem þekkið mig ekki persónulega, er ágætt að segja frá að ég blóta yfirleitt aldrei, hvorki í rituðu né töluðu máli, sem sýnir geðshræringuna í þessum skrifum mínum þennan dag. Einnig á ég það til að skrifa til mín þegar ég skrifa í dagbókina, sérstaklega þegar mér er mikið niðri fyrir.

Ok, hún dó næstum, hólí fokk, fokk, fokk! Hvað ætlarðu að gera? Djöfullinn, ég næ ekki að hugsa skýrt núna. Hugsaðu með heilanum kona! Farðu til baka og hugsaðu, hvað getur þú gert. Það er alltaf eitthvað sem þú getur gert. Ef ekki aðstæðum þá viðbrögðunum við þeim. Þú getur það.
Ok, hún dó bara næstum, sem þýðir að hún er á lífi. Hún er í öndunarvél. Henni er haldið sofandi. Það er nákvæmlega ekkert sem þú getur gert í því. Núll. Nada. Hún er umkringd fólki sem getur hjálpað henni. Þú verður því að hlusta á það. Þú getur gert það.
Þú ætlar líka að halda áfram að elska hana. Meira núna en áður. Þú ætlar EKKI að leyfa hræðslunni að sigra og fjarlægjast hana, þó það sé auðveldara að vera dofin. Það er ekki í boði. Heyrirðu það?! 
Ef hún deyr þarftu að geta horft á sjálfa þig í speglinum og áttað þig á að þú gerðir allt sem þú gast fyrir hana. Og þar sem þú kannt ekkert á þessi helvítis tæki sem halda í henni lífinu, ætlar þú að elska hana. Þú getur það. Vertu þakklát fyrir það. Það kunna ekki allir að elska. Það þora ekki allir að elska.
Núna ætlar þú að vera þakklát og finna þakklæti þegar þér finnst eins og það sé ekkert til að þakka fyrir. Eins og núna. Þú getur verið þakklát fyrir að hún er á lífi. Þakklát fyrir að Valur er með þér í þessu. Og hann elskar þig, spáðu í það. Þakklát fyrir að Anna Pála og Vala Bára eru hérna líka. Þakklát fyrir að vera á þessu sjúkrahúsi. Þakklát fyrir tækin og lyfin. Þakklát fyrir fólkið þitt heima og að þau hugsa um Ásrúnu fyrir þig. 
Sko, sjáðu, rétt áðan ætlaðir þú ekki að koma þér fram úr rúminu og fannst eins og enginn  tilgangur væri með lífinu, svo hefurðu bara helling til að vera þakklát fyrir. Þannig að drullaðu þér á fætur, komdu þér af stað og vertu þakklát fyrir það sem þessi fokking dagur færir þér. Af stað.

Eins og þið sjáið var ég allt annað en yfirveguð. Blaðsíðan í dagbókinni er útsett tárum enda grét ég allan tímann á meðan ég skrifaði þetta, gnísti tönnum og hálf slefaði af bræði.
Mér finnst ég alveg rosalega berskjölduð að deila þessum skrifum með ykkur og sýna ykkur alveg lengst inn í huga minn, á þeirri stundu þar sem ég er hvað mest varnalaus. 
En það er tilgangurinn með þessum skrifum, að sýna fram á, að jafnvel á þeirri stundu þegar maður er algjörlega varnalaus, hræddur og uppgefinn, getur maður fundið styrk. Þannig getur maður risið upp og orðið sterkari en maður var áður. Þó það sé það erfiðasta sem þú hefur gert. 
Hugurinn þjálfast og þetta kemst í vana, maður fer að hugsa öðruvísi og líta öðrum augum á hlutina. Ennþá punkta ég niður hvað ég er þakklát fyrir og hugsa að ég muni gera það það sem eftir er. Þetta einfaldlega hjálpar mér að lifa. 
Ég hvet þig til að gera slíkt hið sama.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023