Vangaveltur 10. apríl 2020


Ég finn fyrir miklu þakklæti þessa dagana. Eitt af því sem ég er hvað þakklátust fyrir er eiginleiki minn í að gera ekki neitt - og njóta þess. Alls staðar í kringum mig líður mér eins og fólk sé að taka allan hraðann sem er dagsdaglega í kringum það og koma því öllu heim. Alls staðar fáum við skilaboð um hvað við eigum að gera og glansmyndir hversdagsleikans fylla samfélagsmiðlana.
Ég er alveg rosalega þakklát fyrir að þurfa ekki að taka þátt í þessu kapphlaupi, hvorki meðvitað né ómeðvitað. Ég veit að skipulag og svona dagskrá hjálpar sumum í gegnum þetta, en fyrir aðra er þetta bara of mikið.
Enda átt þú allt í einu að kunna allt og gera helst milljón hluti í einu á meðan. Kenna börnunum svo þau komi nú ekki vitlaus út úr þessum vetri, mastera fjarvinnu frá eldhúsborðinu með alla í kringum þig, að ógleymdum öllum heimilisstörfunum sem hrannast upp á hraða ljóssins því allir eru heima alla daga núna. Svo þegar þú ert ekki að vinna eða sinna heimilinu máttu alls ekki gleyma því að rækta sjálfan þig með því að hreyfa þig, lesa, stunda handavinnu og föndra eitthvað rosalega sniðugt, stunda hugleiðslu, mála húsið, bæta heimilið, fara í allar framkvæmdirnar sem aldrei er tími til, sjá alla sjónvarpsþættina, spila spilin og alla fjarsaumóana eða fjölskylduboðin sem þú verður að eiga til að vera maður með mönnum. Ofan á þetta áttu svo að meðtaka að það er heimsfaraldur í gangi og halda sönsum.
Þetta er bara svolítið meira en að segja það og átti ég samtal við kæra vinkonu sem var gjörsamlega að bugast undir öllu þessu álagi yfir að vera ekki að standa sig. Svo ég sagði henni bara að gera það ekki, ekki standa þig, stoppaðu bara, leyfðu þér það og sjáðu hvað gerist.
Ég áttaði mig á að þetta samkomubann er ekki að hafa eins djúp áhrif á mig og annað fólk í kringum mig, einfaldlega því ég kann að stoppa og leyfa mér það. Ástæðan fyrir að ég kann það er hins vegar sú að fyrir ekki svo löngu þurfti ég að stoppa því það var ekkert annað í boði. Ég hef nefnilega upplifað mun meiri sóttkví og jafnvel einangrun en er í gangi núna. Í mun lengri tíma og fjarri heimilinu mínu. Núna get ég þó sofið í mínu eigin rúmi þegar ég vil, verið heima og notið þess hve vel við höfum hlúð að heimilinu. 
Ég áttaði mig á þessu þegar Ásrún kom heim úr skólanum einn daginn og sagði á leiðinni inn á baðherbergi hvað hún hugsaði mikið um Völu Mist þessa dagana því alltaf þegar hún kæmi heim byrjaði hún að þvo sér um hendurnar, sem var eitthvað sem við gerðum alltaf þegar hún var á lífi. Þegar hún var á lífi voru líka sprittbrúsar í hverju rými og við afþökkuðum heimsóknir frá aðilum sem voru með kvef eða pestareinkenni, sama hversu væg þau voru. Eini munurinn á ástandinu þá og núna er að núna eru allir í sama bát og við og upplifa það sama.
Þrátt fyrir þessa kunnáttu mína, ef svo mætti að orði komast, eru ekkert allir dagar auðveldir. Núna í morgun var ég t.d. 2 klst að koma mér fram úr rúminu, því ég álpaðist til að skoða Facebook upp í rúmi, sá þessar dásamlegu myndir af Völu Mist og fólkinu mínu sem ég deili með þessari færslu og fylltist svo mikill söknun og sorg að ég kom mér ekki fram úr. Það sem ég gæfi ekki fyrir að fá að knúsa hana, föst heima í samkomubanni, þó það væri ekki nema í 5 mínútur. Ég væri jafnvel til í að vera gráðug og fá heilan dag. Og vera þá ekkert endilega heima, heldur föst inni á sjúkrahúsi í öðru landi, bara til að fá eitt knús enn.
En málið er að það er allt í lagi að allir dagar séu ekki auðveldir, það er allt í lagi að líða stundum illa og vera í sorg. Það er jafn eðlilegt og að vera hamingjusamur og glaður. Einnig er ekki þar með sagt að þó þú sért í sorg að þér geti ekki liðið vel. Núna er ég t.d. komin yfir gráturinn og dofann yfir í að sitja sátt við eldúsborðið og skrifa þessi orð. Ég átta mig ég að ég mun sakna hennar meira í dag en aðra daga, en það er allt í lagi, því ég veit að dagurinn verður góður, því ég er búin að ákveða það. Lífið er ekki annað hvort eða, það getur verið alls konar, ef þú bara leyfir því það og þorir að prófa.
Ég óska ykkur öllum gleðilegra páska, vona að þið hafið það sem allra best og leyfið ykkur að líða eins og ykkur þarf að líða til að komast í gegnum þessa skrítnu daga.

Ummæli

  1. Ósköp eru þetta falleg skrif elsku Lilja, og svo sönn. Enda erum við ekki í fríi með endalausan tíma til að gera allt og ekkert, heldur í samkomubanni vegna heimsfaraldurs. Við þurfum að huga einstaklega vel að andlegu heilsunni núna og mér þykir svo gott að lesa orðin þín. Ég veit að þau gera gott fyrir þig, og þau gera gott fyrir mig líka. Takk fyrir að deila þessum fínu myndum af elsku Völu Mist, mikið sem væri gott að fá að knúsa hana einu sinni enn. Knús í hús ;*

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023