Vangaveltur 11. maí 2020



Í gær var alþjóðlegi mæðradagurinn og varð mér hugsað til þessa myndbands sem ég sá þegar Vala Mist var enn á lífi.
Ég man hvað ég var þakklát, þegar ég horfði á það í gegnum tárin, að ég væri ekki ein. Ég væri ekki ein að brotna niður, finnast þetta of mikið, finnast ég ekki geta þetta. Ég hef verið þessi kona í öllum þessum myndbrotum. Þegar maður á veikt barn verður allt svo miklu ýktara og maður er settur í þá stöðu að verða að vera sterk. Það er ekkert annað í boði.
Það var mikill lærdómur að átta sig á að til að geta verið sterk, þarf maður að leyfa sér að vera það ekki inn á milli. Því maður getur ekki verið sterk alltaf, þá brennur maður hreinlega út, það verður ekkert eftir.
Stundin sem ég áttaði mig á því að ég gæti ekki alltaf verið sterk var þegar ég var í EKG riti og ég sá svart á hvítu að það var nákvæmlega ekkert að hjartanu í mér, púlsinn var reglulegur innan eðlilegra marka og hjartað sló eins og eftir klukku. Ástæðan fyrir að ég var í línuritinu var því mér fannst ég upplifa of hraðan púls og fann til líkamlegra einkenna. Það bara hlyti að vera eitthvað að. Og það var alveg eitthvað að, bara ekkert líkamlegt. Andlega álagið var svo mikið að ég var farin að finna fyrir því líkamlega.
Ég man að ég fór heim, tók Völu Mist í fangið og bara grét. Ég grét og grét og grét. Yfir hvað þetta væri ósanngjarnt og ömurlegt, hvað ég væri ekki með neitt á hreinu og kynni ekki nóg.
Með sofandi barnið í fanginu fann ég að ég róaðist og ég gæti þetta víst, ég væri búin að geta þetta hingað til svo ég gæti þetta alveg áfram. Svo ég bara hélt áfram. Og held áfram enn.
Ég er enn móðir 2 yndislegra dætra þó svo að önnur eigi sér núna engan annan stað nema í hjarta mér. Báðar fylgja þær mér á hverjum degi hvert sem ég fer og ennþá þarf ég stundum á því að halda að vera ekki sterk.
Ég held að allir þurfi af og til að vera ekki sterkir. Að leyfa sér að finna og fá útrás fyrir tilfinningar. Þó svo að "það sé ekkert að", þá má það. Svo er líka í lagi að fá hjálp, því maður þarf ekki að kunna eða geta allt - en það er nú efni í alveg nýjan pistil.
Ég óska ykkur öllum því gleðilegan mæðradag degi of seint, sérstaklega sendi ég kveðju til minnar yndislegu móður sem ég get alltaf leitað til, jafnt á góðum dögum sem slæmum og er það lánsöm að geta kallað hana vinkonu mína.
Einnig vil ég senda tengdamóður minni sérstaka kveðju, það að ég hugsi einungis með hlýju til þess tíma þegar við bjuggum inni á heimili tengdaforeldra minna í rúm 3 ár á meðan við vorum að byggja okkur nýtt heimili og eignast okkar fyrsta barn allt í bland, segir hve mikil vinkona mín hún er og fyrir það er ég óendanlega þakklát.
Eigið góðan dag í dag og takk fyrir lesturinn.

Ummæli

  1. Takk fyrir þessi fallegu skrif elsku Lilja, og síðbúin mæðradagskveðja til þín ;*

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023