Vangaveltur 14. júní 2020

Í síðasta pistli mínum var ég að velta fyrir mér hvort að við værum núna loksins tilbúin í breytingu, setja aðra forgangsröðun í samfélagið. Mér til mikilla vonbrigða virðist ekki svo vera. Nú erum við nýbúin að standa fyrstu bylgju hér á Íslandi í heimsfaraldri og erum að horfa framan í þann veruleika að hjúkrunarfræðingar eru á leiðinni í verkfall, því ríkið er ekki tilbúið að semja við þau þannig að þau fái mannsæmandi laun fyrir vinnuna sína.
Þetta snertir mig á marga vegu, mamma mín er hjúkrunarfræðingur og ég man alveg eftir því úr barnæsku þegar ég fagnaði nýju ári með henni í gegnum símann því hún var í vinnu. Svo hún gæti hugsað um fólk sem þurfti á því að halda. Fólk sem eignast stað í hjarta hennar, þar sem hún fagnar með þeim sigrunum og hlúar að þeim þegar erfiðleikar steðja að.
Að upplifa það að sjá hana berjast við að verða ekki bitur vegna þess hvernig er komið fram við hana er rosalega erfitt. Enda get ég ekki ímyndað mér hvernig þetta er, að þurfa að berjast við biturleika vegna starfs sem þú elskar og lifir fyrir. Að upplifa það að vera ekki metin af verðleikum.
Auk mömmu kynntist ég mörgum hjúkrunarfræðingum (og öðru heilbrigðisstarfsfólki) í gegnum veikindi Völu Mistar. Frá fyrsta degi voru þau stoð mín og stytta. Það voru þau sem hlúðu að mér jafnt sem henni. Pössuðu að ég svæfi, borðaði og almennt hugsaði um mig, andlega og líkamlega. Urðu trúnaðarvinir og til staðar þegar þess þurfti. Sem var oft. Þrátt fyrir að vera á sífelldum hlaupum vegna álags gáfu þau sér alltaf tíma.
Síðustu viku lífs síns lá Vala Mist inni á gjörgæslunni á Landspítalanum sofandi í öndunarvél. Ég hef enn ekki nægilega sterk og góð orð til að lýsa starfsfólkinu á deildinni. Vala Mist lá inni á sérherbergi og alltaf var starfsmaður þar inni, til staðar þegar við þurftum að hella úr okkur og til baka þegar við þurftum að fá að eiga stund með dóttur okkar. Þau sýndu okkur ekkert nema stuðning og skilning og virtust finna á sér hvenær við vildum fá að spjalla og hvenær ekki.
Þau gáfu okkur síðan eina fallegustu og ástríkustu stund sem ég hef upplifað á ævi minni, en það er stundin þegar Vala Mist dó. Ég held að ég hafi aldrei upplifað jafn mikla ást og á þeirri stundu, þar sem við Valur láum með Völu Mist á milli okkar uppi í rúmi. Þessa stund gátum við átt þar sem þau voru búin að gefa okkur rými og tíma til að geta kvatt dóttur okkar í ást. Leyfðu okkur að átta okkur á að við elskuðum hana nógu mikið til að leyfa henni að kveðja þetta líf. Öruggt umhverfi þar sem hjúkrunarfræðingurinn var til staðar allan tímann en samt var eins og við værum ein.
Eftir að Vala Mist dó þakkaði hjúkrunarfræðingurinn okkur fyrir að fá að deila þessari stund með okkur, það hefði verið heiður hennar að fá að hjúkra Völu Mist síðasta spölinn. Ég vona að við höfum getað komið þakklæti okkar til hennar nægilega til skila, því ég á aldrei eftir að geta þakkað það nægilega. 
Við erum að tala um fólkið sem hugsar um okkur þegar við erum sem veikust og viðkvæmust fyrir. Kveðjustundin hefði getað farið á allt annan veg en hún var, en vegna þessa framúrskarandi fagfólks er þetta stund sem ég geymi vel og vandlega í hjarta mínu með hlýju og væntumþykju.
Því grátbið ég samfélagið og stjórnvöld um breytingar á forgangsröðun í samfélaginu. Tökum höndum saman og veitum þeim mannsæmandi laun sem hægt er að lifa af. Því við viljum hafa gott fólk á þessum vígstöðum.
Hjúkrunarfræðingar eru búnir að vera samningslausir í 5 ár, þar sem í síðustu kjarabaráttu var settur á gerðardómur og svo er liðið ár. Þessu þarf að breyta. Núna.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023