Vangaveltur 24. nóvember 2020

Í dag eru 2 ár síðan elsku Vala Mist lést. Ég ber mjög blendnar tilfinningar til þessa dags og hann kemur meira við mig í ár en í fyrra. Ég áttaði mig á því um daginn að það er lengra síðan Vala Mist lést heldur en hún lifði, en hún varð 1 árs, 10 mánaða og 12 daga. Þetta kom svolítið flatt upp á mig og ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að melta þetta. Ég veit það í raun ekki ennþá. 

Ég finn að þröskuldurinn er lægri fyrir tárum en vanalega. Sem er allt í lagi, ég skammast mín ekkert fyrir tárin mín. Ég skammast mín heldur ekkert fyrir þessar tilfinningar og miklu sorg sem umvefur mig í dag. Ég veit að sorgin er svona sterk því söknuðurinn er svo mikill.

Ég hef áður deilt sögu Emily Pearl Kingsley sem fjallar um það að eiga langveikt barn, þar sem myndlíkingin er að maður planar ferðalag til Ítalíu en lendir í Hollandi. 

Emily Perl Kingsley er móðir fatlaðs barns og hún hefur oft verið beðin um að lýsa reynslu sinni á að ala upp fatlað barn. Hún svaraði því með sögu sem er orðin þekkt út um allan heim. Hún lýsir reynslu sinni að með því að draga upp líkingu; að eiga von á barni er eins og að skipuleggja dásamlegt ferðalag til Ítalíu. Hún kaupir fullt af leiðsögubókum og skipuleggur frábærar ferðir. Hún lærir nokkrar setningar í Ítölsku og allt er mjög spennandi. Eftir að hafa beðið spennt í marga mánuði pakkar hún niður og ætlar að leggja af stað. 

Þegar flugvélin lendir býður flugfreyjan hana velkomna til Hollands. Emily verður hissa og spyr hvað hún meinar með Holland, hún ætlaði að fara til Ítalíu vegna þess að alla ævi hafði henni dreymt um að fara til Ítalíu. En flugáætlunin hafði breyst og flugvélin lenti í Hollandi. Mestu skipti þó að þeir flugu ekki með Emily á hræðilegan, viðbjóðslegan, skítugan stað fullan af meindýrum, sjúkdómum og hungri. Emily er bara annarsstaðar en hún ætlaði sér í upphafi. Hún kaupir sér nýjar leiðsögubækur og lærir nýtt tungumál og hittir fólk sem hún hefði ekki kynnst áður. Þetta er allt annar staður, allt gerist hægar en á Ítalíu. 

Þegar hún hefur náð andanum, staldrar við og lítur í kringum sig fer hún að taka eftir fallega Hollandi. Hún tekur eftir því að Holland hefur vindmillur og fallega túlípana. Allir samferðamenn Emily eru uppteknir að fara til Ítalíu og monta sig yfir góðu stundunum sem þeir áttu á Ítalíu. Sársaukinn mun aldrei hverfa vegna þess að draumurinn sem ekki rættist er mikill. Emily bendir á í lokin að ef maður eyðir allri ævinni í að syrgja að maður hafi ekki farið til Ítalíu þá nær maður aldrei að njóta þeirra fallegu, sérstöku og yndislegu hluta sem Holland hefur uppá að bjóða. 

Þessi saga kennir foreldrum og samfélaginu að taka hlutverkinu sem okkur er ætlað. Ef fólk festist í sorginni þá nær það ekki að sjá það góða sem barnið þeirra gefur þeim. 

Það má í raun yfirfæra þessa sögu líka yfir á það að hafa misst barnið sitt. Þetta er eitthvað sem fólk kannski ekki skilur fyrr en það hefur upplifað það. Suma daga finnst mér ekkert mál að sjá börn sem eru jafngömul Völu Mist stækka og þroskast eða sjá foreldra jafnaldra hennar útbúa foreldrasíðu á Facebook til að auðvelda samskipti. Aðra daga langar mig að skríða undir feld og vera þar þar til ég næ að púsla hjartanu á mér saman aftur þó það virðist vera ógjörningur.

Það sem skiptir mestu máli er, eins og áður, að festa sig ekki í sorginni heldur átta sig á að maður getur lifað með sorginni, verið hamingjusamur um leið og séð það fallega sem lífið hefur upp á að bjóða. Sorgin kennir mér að vera þakklát fyrir tímann sem ég átti með Völu Mist í stað þess að einblýna á það að hún sé dáin. Því þó hún sé dáin, er hún alltaf hjá mér, þroskar mig og styrkir. Ég væri ekki manneskjan sem ég er í dag ef hún hefði ekki dáið, og ég er þakklát fyrir að vera ég.

Það að taka sorgina í sátt leyfir manni að fá útrás fyrir allar tilfinningarnar sínar og veitir manni rými til að púsla hjartanu saman aftur, því ég veit að túlípanarnir eru til staðar þó ég sé lengur að koma auga á þá í dag en aðra daga.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023