Vangaveltur 12. janúar 2021

 Í dag er afmælisdagur hjartadrottningunnar okkar. Hún hefði orðið 4. ára ef hún hefði lifað. Í huga mér hugsa ég hana alltaf heilbrigða og hvernig krakki hún væri orðin. Hugsa að það sé vegna þess að ég stimplaði hana aldrei þegar hún var á lífi og geri það því ekki núna heldur.

Við ákváðum að taka okkur frí frá hinu daglega lífi í dag og fórum því ekki í vinnu eða skóla og áttum daginn saman. Fórum í bakaríið og fengum okkur fínan morgunmat, bökuðum afmæliskökur (já... Í fleirtölu 🙊🙉🙈) og fórum út að leika. Þar sem engin afmælisgjöf var keypt ákváðum við að millifæra andvirði gjafar til Neistans, styrktarfélags hjartveikra barna, en þau stóðu þétt við bakið á okkur þegar Vala Mist fæddist.
Svo kveiktum við á kertum í tilefni Ljósadags Skagfirðinga (hefð til að minnast látinna ástvina) bæði hér heima og uppi í garði hjá henni og afa þar sem Ásrún teiknaði hjarta og afmælisköku með 4 kertum í snjóinn fyrir systur sína.
Allt í allt fallegur dagur þar sem allur tilfinningaskalinn var tekinn, en ég viðurkenni að söknuðurinn var mikill í dag og tók dagurinn því heilmikið á. Það er svo margt sem ég syrgi í dag og þá sérstaklega draumur um litla káta stelpuhnátu sem hleypur um og kannar heiminn. Eins og það er sárt að sakna, finnst mér líka gott að finna sársaukann og hlúa að honum, hann styrkir mig og bætir.
Ég sendi ykkur öllum hlýju og ljós í dag.


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023