Vangaveltur 12. apríl 2021

Skömm. Tilfinning sem við upplifum öll en myndum helst vilja sleppa. Tilfinning sem gerir okkur gjörsamlega varnarlaus, þannig að maður upplifir það að hafa engin vopn í höndunum og er algjörlega berskjaldaður. Hrá hræðsla við að vera ekki nógu góð. 

Þetta er sú tilfinning sem ég er hvað mest viðkvæmust fyrir og á erfitt með að stjórna, eða, stjórna viðbrögðum mínum þegar hún kemur upp. Sem er ástæðan fyrir skrifum mínum í dag, sem fyrsta skref í að ná valdi yfir þessari tilfinningu og hvernig ég bregst við henni.

Ætla ég að deila með ykkur atviki þar sem ég upplifði skömm fyrir skemmstu. Tengist það nýju áhugamáli mínu, hjólreiðum, en ég byrjaði markvisst að hjóla fyrir um 1 1/2 ári síðan.

Það kemur mér í raun ekki á óvart að þessi tilfinning tengist þessu líkamlega athæfi, hjólreiðum, þar sem ég hef aldrei talið mig vera góða í neinum íþróttum, heldur hef ég hreinlega flokkað mig sem lélega og hef lengi vel forðast þess háttar hreyfingu vopnuð alls konar afsökunum, í bland við niðurrif þegar illa tekst upp. Ég átta mig á að þetta tengist því meðal annars hvað það stakk í hjartað að vera sífellt valin síðust í lið í íþróttum í skóla, hvernig mér fannst ég aldrei ná neinum prófum (munið eftir blessaða píp-testinu) og upplifði mig hreinlega lélega trekk í trekk í íþróttatímum og skömmina sem því fylgdi. Þetta situr enn rosalega í mér, en smátt og smátt ætla ég að komast yfir þessa tilfinningu.

Um daginn skruppum við Valur út að prófa nýju fjallahjólin okkar. Við bara settumst á hjólin og fórum af stað. Fyrst upplifði ég mikið frelsi og þessa dásamlegu tilfinningu sem fyllir mann þegar maður fer út og sólin vermir húðina, sem er sérstaklega frískandi í marsmánuði á Íslandi og manni finnst allt vera lifna við á ný. Við hjóluðum upp í Litla-Skóg (sem er, eins og nafnið gefur til kynna, lítill skógur sem er við Sauðárkrók, sannkölluð útivistarparadís) og hló ég jafnmikið og ég skríkti þar sem ég upplifði barnslega gleði í leik. Það sem ég gat ekki hjólað reiddi ég hjólið bara og kom ég sjálfri mér á óvart hvað ég komst.

Svo kom að því að fara niður aftur og má segja að þá hafi allt farið niður á við hjá mér. Sjálfstraustið minnkaði, ég var sífellt á bremsunni, fannst ég fara allt of hratt þrátt fyrir sniglarhraða og svo datt ég illa á hliðina sem braut sjálfstraustið í mola. Þá upplifði ég allskonar, en þó mest hræðslu og skömm. Skömm fyrir að vera svona hrædd. Skömm fyrir að vera ekki nógu skemmtilegur hjólafélagi fyrir Val (sem hjólaði enn um allt eins og hersforingi þegar hann var ekki að bíða eftir mér, enda mun öruggari á hjólinu). Skömm fyrir að vera stuttorð við Val bara því ég væri sjálf hrædd. Skömm fyrir að vera lélegri en Valur. Skömm fyrir að vera hreinlega léleg. Skömm fyrir að líða svona þrátt fyrir að vera fullorðin manneskja.

Ég náði þó að sniglast áfram þar til það kom að einni lokabrekku, að minnsta kosti var þetta lokapunkturinn hjá mér í þessari ferð. Hún var nokkuð brött og ég gjörsamlega fraus af hræðslu, þrátt fyrir að ég væri komin af hjólinu og ætlaði að reiða það niður. Þegar ég segi að ég fraus, þá er það nákvæmlega það sem gerðist. Ég gat hvorki hreyft legg né lið. Mér til skelfingar fann ég ekkann brjótast á yfirborðið og tárin streyma niður kinnarnar. 

Valur kom til móts við mig og tók hjólið fyrir mig og ég náði að komast niður brekkuna. Til að bæta gráu ofan á svart sá ég að það var fullt af fólki á svæðinu. Skömmin þúsundfaldaðist á sekúndubroti. Ég skammaðist mín nægilega fyrir þetta ein og sér, hvað þá að aðrir yrðu vitni að því. Fullorðið fólk á ekki að gráta þegar það er hrætt á almannafæri, það á að spila sig kúl á yfirborðinu þrátt fyrir hamrandi hjartslátt. Nú hef ég ekki hugmynd um það hvort þetta fólk sá mig gráta og frjósa af hræðslu en það eina sem komst að hjá mér var að koma mér í burtu. 

Án þess að þakka Val fyrir aðstoðina tók ég hjólið og "brunaði" af stað heim og stoppaði ekki fyrr en fyrir utan heima. Alla leiðina heim hugsaði ég hvað það hefði verið mikil peningaeyðsla að spreða í þetta hjól fyrir mig, hvað ég væri að pæla að halda að ég gæti hjólað svona og að ég gæti aldrei verið nægilega skemmtilegur hjólafélagi fyrir Val. Ég væri ekki nóg og yrði aldrei. Með öðrum orðum þá leyfði ég skömminni að rakka mig niður og skilja sjálfa mig eftir algjörlega niðurbrotna.

Ég áttaði mig síðan á að þetta hefði ekki gerst ef ég hefði ekki skammast mín fyrir hræðsluna, heldur einfaldlega tekið hana í sátt og verið góð við sjálfa mig í stað þess að rakka mig niður. Sem er það sem ég er búin að vera prédika með allar tilfinningar, taka þær í sátt þannig að ég gæti haldið áfram og ekki fests í sama farinu. 

Í stað þess að skammast mín fyrir að hafa orðið hrædd, frosið í sporunum og farið að gráta hefði ég getað tekið hræðsluna í sátt, verið stolt af sjálfri mér að vera sífellt að ýta sjálfri mér út fyrir þægindarammann með því að prófa nýja hluti sem eru mér erfiðir og verið þakklát að vera með einstaklingi sem styður mig og aðstoðar þegar þess þarf. 

Sem er nákvæmlega það sem ég ætla að gera næst þegar ég verð hrædd þegar ég er úti að hjóla, því ég ætla aftur út að hjóla og takast á við krefjandi aðstæður. Annars er ég að leyfa skömminni að vinna og það sem verra er, leyfa henni að hamla mér. Sem gengur ekki, því mig langar að fara út að leika, hafa gaman og verða betri. Komast lengra og gera meira. Lifa núna. 

Ég þarf líka að hætta að bera mig saman við aðra og einbeita mér að mér og mínum framförum. Læra af því og halda áfram að vaxa á mínum forsendum. Þora að horfast í augu við hræðsluna og þannig vaxa, þora að skora á sjálfa mig án þess að rakka mig niður ef það tekst ekki, heldur fagna því að hafa þor og hugrekki að prófa. Sem er jú mun betra en að þora ekki og þannig hætta að vaxa og þroskast.

Það er með þessu hugarfari sem ég deili þessum skrifum mínum með ykkur, því hér er ég að deila með ykkur andartaki og hugsunum sem gera mig algjörlega berskjaldaða og varnarlausa, en með því að deila þeim, horfist ég í augu við hræðsluna, bið skömmina að halda sig heima og er einu skrefi nær í því markmiði mínu að breyta viðbrögðum mínum við þessar tilfinningar. 

En það er nefnilega málið með markmið, með því að deila þeim með öðrum aukast líkurnar um meira en helming að maður nái þeim. Því þakka ég ykkur fyrir lesturinn og vona að hann veiti ykkur hvatningu í að breyta viðbrögðum ykkar við skömm, ef þess þarf, með þá vitneskju að vopni að þið eruð alls ekki ein að líða svona.


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 12. október 2017

Vangaveltur 16. maí 2023