Vangaveltur 18. desember 2021

 Jólin. Yndislegur en flókinn tími. Stundum jafnvel hreint út sagt erfiður.

Ég hef alltaf verið mikið jólabarn, viljað haldið í hefðir og drekkt mér í þeirri gleði og hamingju sem jólin færa okkur. Hin seinni ár hafa jólin flækst fyrir mér, eða öll þessi hamingju og gleði áhersla sem er á jólunum. Fundist það hreinlega yfirþyrmandi.

Nú er ég hamingjusöm manneskja en það þýðir ekki að ég sé í blússandi gleði alla daga. Suma daga á ég erfitt með að komast fram úr rúminu. Græt mikið, þröskuldurinn lægri og orkan í lágmarki. Stundum upplifi ég einn af þessum þáttum, stundum alla og jafnvel meira til. 

Ég finn að tilfinningarnar fara í meiri rússíbana hjá mér í kringum jólin en hina mánuðina. Ég veit að það spilar margt þar inn í, Vala Mist lést mánuði fyrir jól og það er bara flókið, svona tilfinningalega séð, þó ég segi ekki að það stjórni mér. Hin almenna áhersla á gleði í samfélaginu á þessum tíma, ásamt hefðum og vana veldur því að ég sakna fólksins míns sem ég hef misst meira en aðra daga. Sorgin tekur meira rými.

Það er því enn mikilvægara að ég leyfi mér bara að vera og líða eins og mér þurfi að líða þessa dagana. Jólin eru ekkert ónýt þó ég vilji ekki halda í hefðir. Þó ég gráti og gnísti tönnum. Maður getur átt góð jól þó þau séu ekki endilega gleðileg. Þegar maður hefur misst nána ástvini er skiljanlegt að maður minnist þeirra þegar hátíð kærleika og friðar er í hámarki. Sorg er ekkert annað en endurspeglun á ást og kærleika. Og er það ekki akkúrat það sem jólin snúast um?

Því vil ég leggja áherslu á að það er allt í lagi að gráta á jólunum. Að syrgja og minnast. Breyta hefðum. Hlúa að sér, og þannig, gleðjast jafnvel í sorginni. Að hugga sig við hve ástin var mikil og að við séum ennþá að upplifa þá ást, þó hún sé í öðru formi. 

Það er líka allt í lagi þó maður upplifi ekkert af þessu og líði bara vel um jólin. Sé ekkert að spá í þessu. Njóta líðandi stundar. Það eru engar reglur hvernig manni á að líða, enda held ég að ég geti fullyrt að tilfinningarnar myndu aldrei hlusta hvort sem er á þær reglur. 

Mig langar að enda þessa færslu á broti úr bókarkafla sem ég skrifaði um jólin 2016, þegar ég var inniliggjandi á Kvennadeild Landspítalans og Vala Mist var enn í móðurkviði, rússíbanareiðin rétt hafin. Ykkur að segja er ein af ástæðunum hve fáar færslunar hafa verið á blogginu í ár, er vegna þess að ég er að skrifa söguna hennar Völu Mistar og hvernig ég minnist þess ferðalag sem lífið hennar var. Hvað verður svo um þessa bók hef ég ekki enn ákveðið, en skrifin mín eru þar.

Þar sem hjartslátturinn hjá fóstrinu var ennþá í ruglinu fékk ég ekki fararleyfi út af deildinni á aðfangadag. Óöryggið var enn svo mikið var ég hálf fegin, því ég veit ekki hvort ég hefði notið mín ef ég hefði farið út af sjúkrahúsinu. Það breytir því ekki að þetta tók þó nokkuð á sálina, sér í lagi dýrmæti hálftíminn sem ég átti með Val og Ásrúnu um miðjan daginn. Blessunarlega var enginn inni í biðstofunni og ljósmæðurnar voru svo yndislegar að þær útbjuggu miða á hurðina þar sem stóð að það væri upptekið svo við myndum fá frið. Ásrún var uppfull af barnslegri gleði jólanna og ég hef sjaldan verið jafn þakklát fyrir fólkið í lífi mínu þegar ég sá hvernig hún geislaði af einlægri gleði af tilhlökkun yfir kvöldinu. Einnig ákvað ég að taka hana mér til fyrirmyndar eins og svo oft áður þegar hún kemur mér á óvart með einstakri sýn sinni á lífið. Þrátt fyrir skrítnar aðstæður leyfði hún sér að gleðjast og hlakka til. Þannig að ég ákvað að ég ætlaði að leyfa mér bara að vera og gera ekki meira úr hlutunum en þörf var á. Ég gæti stjórnað því hversu erfitt mér þætti þetta og það væri bara allt í lagi þó ég væri ekki grátandi í dramakasti yfir því hvað ég ætti bágt, heldur gæti verið þakklát fyrir það að mér liði bara ágætlega, það væri enn í lagi með barnið sem ég bar í móðurkviði og maðurinn sem ég elskaði og dóttir ættu í vændum notalega kvöldstund með ástvinum. Það væri bara ekkert svo slæm staða til að vera í.

Ég hef þó sjaldan verið eins ein og þegar klukkan sló sex þetta kvöld, og ég hef sjaldan verið eins þakklát fyrir það að vera ein. Sjúkrahúsherbergi er ekki staður sem maður ætti að vera í á jólunum og því var ég fegin að deila því ekki með öðrum og þurfa að búa til einhvern uppgerðar hátíðarleika, heldur mætti bara vera. 

Ég átti notalega kvöldstund þar sem ég horfði á heilalausar ástarþvælur sem voru í línulegri dagskrá, talaði við ástvini í síma, opnaði nokkra pakka og hló yfir frábærum vidjóum sem ég fékk send af Ásrúnu rífa utan af gjöfunum sem voru allar besta gjöf í heimi. Ég grét heilan helling líka, sem var akkúrat útrásin sem ég þurfti. Ég las bók sem ég fékk í jólagjöf, sem ég las aftur 3 árum síðar og mundi ekki staf úr henni eða að ég ætti hana, Partzeimerinn náði nýjum hæðum á þessu tímabili því það sem ég þó man, er í algjörri móðu. Sem er ein af ástæðunum fyrir þessum skrifum mínum, mitt haldreipi til að muna hvernig þetta allt var.

Ljósmæðurnar voru duglegar að kíkja inn til mín og veittu mér og síritanum félagsskap, en ástar-haturssambandið jókst með hverjum deginum á blessuðu tækinu, sem var þó núna búið að þagga niður í, þannig að ég sá bara tölurnar og línurnar renna hljóðlaust yfir skjáinn. 

Það var svo eitt augnablik sem verður mér ávalt ógleymanlegt þetta kvöld. Ég fór á klósettið, sem væri ekki frásögu færandi, sér í lagi fyrir ólétta konu, að ég leit í spegilinn og sprakk úr hlátri. Hárið var eins og heysáta, ég hafði fengið bólur og útbrot af einu lyfinu sem ég var á þannig að fílamaðurinn hefði ekki átt séns í mig og ég var í sjúskuðum teygðum hvítum sjúkrahúsbol með risa sósublett yfir öðru brjóstinu. Helst væri hægt að lýsa mér eins og steríótýpu úr hjólhýsahverfi í amerískri bíómynd. Ástæðan fyrir hve fyndið mér fannst útlit mitt vera var að rétt rúmri viku áður hafði ég verið að óskapast yfir því í hverju ég ætti eiginlega að vera á aðfangadagskvöld því ég ætti svo fá föt sem pössuðu enn á mig og þetta olli mér nokkru hugarangri. Þar sem ég starði á sjálfa mig í speglinum áttaði ég mig á því hve lítilsverðar þessar áhyggjur mínar hefðu verið, nú þegar ég var að berjast við að halda barninu í móðurkviði eins lengi og ég gæti svo hún ætti betri séns þegar út væri komið. Jafnframt huggaði ég mig við það að hér eftir gæti ég klæðst svörtum ruslapoka á jólunum og litið þrátt fyrir það betur út en þetta kvöld.


Þannig að þið sjáið að þið getið reynt að stjórna því sjálf hvernig jólin ykkar verða, hvað þið gerið og hverju þið klæðist :)

Ég óska ykkur öllum góðra jóla og vona innst frá mínum hjartarótum að þið gefið ykkur þá jólagjöf að vera góð við ykkur sjálf og umvefja ykkur þeim kærleik sem þið þurfið á að halda.

Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 16. maí 2023

Vangaveltur 12. október 2017