Vangaveltur 30. janúar 2022

Haustið 2020 fundum við Valur þrána kvikna hjá okkur að prófa að athuga hvort við gætum eignast annað barn, þrátt fyrir stórar yfirlýsingar undirritaðrar um annað. Þessi ákvörðun var lengi að meltast um í mér og tekin í mörgum litlum skrefum, meðvituðum og ómeðvituðum. Í þessu, líkt og öðru í lífinu, er hollt að muna að það má skipta um skoðun og það er bara ekkert að því.

Ég ætlaði því ekki að trúa því þegar við urðum ólétt nánast um leið og fannst mér þetta allt virkilega óraunverulegt. Enda kom svo á daginn að ekkert yrði úr þeirri meðgöngu, þegar við svo misstum fóstrið í byrjun janúar 2021. Eins erfið og ömurleg lífsreynsla það er að missa fóstur og þar af leiðandi drauminn um barn, var ég svo þakklát fyrir að hafa upplifað þetta á þessum tímapunkti. 

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem ég missi fóstur en í fyrsta skipti sem ég upplifi þakklæti í kringum þessa upplifun. Þakklætið snérist að því að ég áttaði mig á að þó að barnadraumurinn myndi ekki ganga upp, væri ég samt hamingjusöm. Ég þyrfti ekki að "tikka í þetta box", ég væri sátt við lífið.

Það var í raun þungu fargi af mér létt að uppgötva þetta en það bjó mig ekki undir allan þann tilfinningarússíbana sem þessi meðganga er búin að vera. Þegar við komumst að því seinasta haust að við værum aftur ólétt, settum við vissan vara þar á, enda þekkjum við vel að þetta er ekki sjálfsagt þó að strikin 2 myndu birtast á prófinu. Viðtók bið eftir að staðfesta þungun með hjartslætti og þar næst bið eftir að komast í fylgjusýnatöku sem er ekki hægt að fara í fyrr en í fyrsta lagi á 12. viku.

Við tókum umræðu um hvernig við vildum ganga í gegnum þetta ferli áður en við byrjuðum að reyna og áttuðum okkur á að við myndum ekki vilja ganga í gegnum þetta án þess að vera með vísindin með okkur í liði. 

Biðin uppskar margvíslegar tilfinningar og er í raun upphafið á þessum rússíbana tilfinninga sem ég er búin að upplifa þessa meðgöngu. Maður upplifði einskonar limbó þar sem maður þorði ekki að leyfa sér að gleðjast, en fannst samt eins og maður ætti að gleðjast, hvernig sem þetta færi. Ég vissi að sársaukinn yrði ekkert minni ef eitthvað væri að.

Það kemur því kannski ekki á óvart hve þungt meðgangan lagðist á mig, en fyrstu mánuðina ældi ég sirka 3-8x á dag, komst stundum ekki í gegnum heilan vinnudag og lá bara upp í rúmi þegar ég kom heim og gerði ekkert nema liggja í móki og bíða eftir næsta degi. Það er því vægt til orða tekið að þetta hafi haft áhrif á fjölskyldulíf okkar. Ásrún fékk því að vita mjög snemma að við værum ólétt og hvað væri framundan og tók þátt í þessu öllu með okkur, sem einkennir okkar fjölskyldu, við gerum hlutina saman.

Ég upplifði alls konar tilfinningar á þessu tímabili sem ég er ekki stolt af. Ég fór að pæla í hvað við værum eiginlega að pæla, afhverju værum við að leggja þetta á okkur? Ég átti erfitt með stækkandi kvið og í raun hálf þoldi hann ekki. 

Á þessu tímabili upplifðum við einnig mikla og sára sorg, en bróðir Vals lést í september eftir hetjulega baráttu við krabbamein sem var búin að taka á okkur öll. Svo eins og vill gerast, ýfir ný sorg upp aðra sorg og á tímabili komust fáir að í draumum mínum en ástvinir sem ég hef misst, sem olli því að stundum vaknaði ég algjörlega úrvinda, en á sama tíma aðra daga með hjartað fullt af ást. Mitt í þessu öllu saman fékk pabbi hjartaáfall, sem endaði þó vel enda var gripið nógu fljótt inn í en var engu að síður harkaleg áminning um hversu dýrmætt lífið er.

Eftir að við fengum niðurstöður úr fylgjusýnatökunni að allt liti vel út og allt væri með okkur í liði, enda með vísindin að vopni vissum við að það eru 99% líkur á því að við myndum eignast heilbrigt barn, sveiflaðist ég á milli þess að halda niðrí í mér andanum og sleppa mér í gleði. Þessi meðganga er í raun búin að einkennast af þessum öfga tilfinningum og hef ég bögglast með að ná jafnvægi þar á. Suma daga fer ég í hreiðurgerð á meðan aðra held ég niðrí mér andanum því ég þori ekki að kíkja á klósettpappírinn þegar ég er búin að þurrka mér ef hann skyldi vera útataður í blóði. Að ógleymdri nýrri og stundum óeðlilega mikilli hræðslu við Covid og öllu því tengdu, en sprittæðið er búið að ná nýjum hæðum undanfarna mánuði.

Ég er svo lánsöm að vera umkringd yndislegu fólki á öllum vígstöðum. Yfirmaðurinn minn er búin að sýna mér skilning frá degi eitt og styðja mig ómetanlega. Ljósmóðirin mín heldur virkilega vel utan um mig og alls staðar þar sem ég kem að í heilbrigðiskerfinu finn ég ekkert nema stuðning og hlýju. Þau eru öll sömul meðvitaðri en ég að þetta yrði flókið ferli fyrir mig. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef heyrt ég eigi að vera góð við sjálfa mig og hversu eðlilegt að ég sé að upplifa það sem ég er að upplifa, það væri skrítið ef ég væri ekki að upplifa það.

Rökrétta hliðin á mér er þeim hjartanlega sammála og vel meðvituð um að allar tilfinningar eigi rétt á sér og ég vissi að þessi meðganga yrði ekki einföld. Það breytir því ekki að ég er á köflum ekki búin að vera nægilega góð við sjálfa mig, ætlað að vera dugleg og skammað sjálfa mig fyrir að vera móðursjúk. Það væri ekkert að líkamlega og meðgangan væri að ganga vel, svo ég ætti ekki að láta svona. Svo áfram hélt ég á hnefanum og lenti reglulega á vegg þar sem ég gjörsamlega sprakk úr hræðslu.

Það er ekki fyrr en núna, komin rúmlega 28 vikur á leið að ég leyfi sjálfri mér að þiggja þá hjálp sem mér er búin að standa í boði alla meðgönguna. Ég hitti ljósmóðurina mína reglulega, stundum bara til að spjalla eða heyra hjartsláttinn, bara svona til að róa mig. Ég minnkaði við mig vinnu til að leyfa mér að hægja á og njóta. Setja inn í dagskrána mína verkfæri sem láta mér líða betur. Hreyfing, jóga, hugleiðsla, skrif, handavinna og síðast en ekki síst, leyfa mér stundum að gera nákvæmlega ekki neitt og finnast það bara allt í lagi. Enda hefur framtakssemin aukist um helming eftir að ég gaf sjálfri mér leyfi til að gera ekki neitt, þá allt í einu kemur orka og vilji til að framkvæma hlutina.

Með öðrum orðum, ég er byrjuð að vera góð við sjálfa mig og hlúa að mér. Einnig er ég farin að nota þau verkfæri sem ég á til, til að hjálpa sjálfri mér. Því ég þekki sjálfa mig og veit að þó það sé í lagi að upplifa allar tilfinningar, hef ég líka leiðir til að vinna úr tilfinningunum, í staðin fyrir að sökkva í þeim og láta þær stjórna mér.

Ég er líka meðvituð um að sumir dagar muni vera erfiðari en aðrir, en á móti kemur veit ég, að aðrir dagar verða betri. Það er mitt að finna jafnvægið. Það er mitt að gefa tilfinningunum rými, viðurkenna þær, taka þær í sátt og halda áfram. Ég veit að það verður ekki einfalt, en flóknustu og erfiðustu verkefnin eru oft þau sem gefa manni mest. Ég veit að ég er hamingjusöm og ég veit að ég get tekist á við alls konar verkefni, þó að á köflum virðist það vera ógjörningur. 

Ég veit að maður getur verið hugrakkur þó maður sé hræddur. Með það að vopni ætla ég að halda áfram að njóta þeirrar dýrmætu gjöf sem lífið er, lifandi og í sátt við sjálfa mig, nákvæmlega eins og ég er.


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 16. maí 2023

Vangaveltur 12. október 2017