Vangaveltur 12. janúar 2022

Fyrir 5 árum fékk ég Völu Mist fyrst í fangið, eftir nokkurra klst bið þar sem ég lá inni á vöknun að jafna mig eftir keisara og hún í höndum fagfólks inni á vökudeild.

Ég er með rauðan nebba, útgrátin og úrvinda, en það sem mér þykir vænt um þessa mynd ♥️
Þegar ég sá hana liggja mitt í allri snúruflækjunni komst fátt annað að í huga mínum en þráin að fá hana í fangið, svo ég gæti átt þá minningu að halda á henni amk 1 sinni lifandi, svona ef allt færi á versta veg. Ég guggnaði þó næstum því þegar það þurfti 2 starfsmenn að rétta mér hana útaf allri snúruflækjunni en sem betur fer hlustuðu þær ekkert á mig og sögðu að þetta væri minnsta mál í heimi og þetta væri það besta sem ég gæti gefið dóttur minni á þessari stundu, móðurfaðmurinn. Verð ég þeim ævinlega þakklát fyrir, því þegar ég fékk hana í fangið kviknaði tilfinningin að við gætum þetta, hvað svo sem biði okkar.
Mér finnst ótrúlegt að hugsa til þess að litla hnátan okkar myndi vera 5 ára í dag ef hún hefði lifað.
Ég ákvað að taka mér frí frá vinnu í dag og bara vera. Valur og Ásrún vildu fara í vinnu og skóla og finnst mér svo dásamlegt að við finnum öll sjálf hvað við þurfum í dag, erum samstíga og berum virðingu fyrir því að við þurfum ekki öll að gera það sama.
Ég er búin að verja morgninum og í að skoða myndir frá því Vala Mist fæddist og ferðalaginu sem við áttum í Svíþjóð, sem er ekki eitthvað sem ég geri oft því það reynist mér yfirleitt svo erfitt. En í dag er það bara búið að vera ljúft og ég er búin að hlæja í gegnum tárin er ég renni í gegnum myndirnar og dáðst að styrknum sem litli engillinn okkar sýndi í gegnum þau verkefni sem hún þurfti að takast á við. Kenndi hún mér að það er ekki lengd lífsins sem skiptir máli, heldur gæði þess og viðhorf sem við höfum til þess og litlu stundanna sem eru svo dýrmætar.
Ég var með tilbúna verkfærakistu fyrir daginn ef svo mætti að orði komast. Tónlist hefur alla tíð hjálpað mér þegar ég hef þurfti útrás og fyrir nokkru síðan útbjó ég mér "grát-playlista". Hann byrjar á lagi sem ég get eiginlega ekki hlustað á öðruvísi en að hugsa um Völu Mist og hreinlega fara að gráta, svo tilfinningahlaðið er það. Þegar ég þarf að fá útrás fyrir sorgina hlusta ég á það lag á repeat oft lengi, lengi þar til að allt í einu er útrásin komin og ég þarf ekki að hlusta lengur á það. Næsta lag á listanum kemur sem er bittersweet en ekki eins erfitt og fær mig til að líða betur. Restin af listanum samanstendur svo af lögum sem lætur mig líða betur og betur og yfirleitt í lok listans er ég þúsund kílóum léttari og er orðin sátt í mínu skinni. Enda held ég að tárin næri og vökvi sálina þegar við þurfum á því að halda. Ef tónlist gefur ykkur hugarró mæli ég innilega með þessari aðferð.
Núna ætla ég að fara að baka afmælisköku fyrir litla afmælisengilinn okkar sem við fjölskyldan ætlum að njóta saman þegar þau koma heim.
Ég hvet ykkur öll til að njóta dagsins og minnast þeirra sem stendur hjarta ykkar næst, sorgin er ekkert annað en endurspeglun á þeirri miklu ást sem við eigum og fyrir það getum við ávalt verið þakklát ♥️

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 16. maí 2023

Vangaveltur 12. október 2017