Vangaveltur 5. febrúar 2022

Í morgun vaknaði ég við það að krílan var með hiksta og rétt á meðan ég var að meðtaka hversu krúttlegt mér þætti það, að litla krílið væri farið að gera eitthvað jafn mannlegt og raunverulegt og að hiksta, ákvað hún að dúndra í þvagblöðruna svo það var ekkert annað í boði en að drífa sig á fætur 😅

Ég er meðvituð um svo margt á þessari meðgöngu. Finnst ekkert sjálfsagt, fagna litlu kraftaverkunum en er alltaf með varann á, varnar mechanisminn á hæstu stillingu svona til vonar og vara.

Ég er til dæmis ekki búin að kaupa neitt, þó ég sé búin að ákveða hvernig rúm ég vilji, hvernig vagn, barnapíutæki og alla þessa litlu hluti sem gott er að eiga þegar nýtt barn kemur inn á heimilið. Ég er með yndislegt fólk í startholunum í kringum mig sem eru með ákveðna hluti tilbúna þegar ég verð loksins tilbúin að taka við þeim. 

Ég átta mig á að þetta eru varnarviðbrögð, því sársaukinn að koma heim eftir að Vala Mist lést var nánast óbærilegur. Dótið á stofugólfinu sem ég hafði fórnað höndum yfir var allt í einu ekki með neinn tilgang og beið þess eins að við myndum ganga frá því. Fötin í óhreina tauinu sem ég þvoði og setti í fataskúffuna hennar, þar sem þau eru enn því ég hef ekki enn getað farið í gegnum þau og gengið frá þeim, því það er svo endanlegt.

Tómt barnarúmið í svefnherberginu sem við þurftum að taka í sundur, ganga frá og skila. Mjólkurdroparnir á gólfinu í svefnherberginu sem ég beið í heilt ár að þrífa og skúraði fram hjá þeim því ég var ekki tilbúin að kveðja þá ljúfsáru tilfinningu sem blossaði upp í hvert sinn sem ég sá þá. Þegar ég kom mér svo í að þrífa blettina vildu þeir ekki fara. Ég var í yfir klukkustund að skrúbba gólfið og fóru blettirnir ekki fyrr en tárin voru farin að blandast sápuvatninu. Skildu þessu þrif eftir hreint gólf og hreina sál.

Ég átta mig á að þetta eru allt saman skref sem ég þarf að taka þegar ég er tilbúin. Enn og aftur er það sjálfskærleikurinn sem skiptir mestu máli, að ég leyfi mér að vera góð við sjálfa mig þegar ég tek þessi skref. Því ég veit hversu mikilvægt það er að taka þessi skref, í stað þess að leyfa öðrum að sjá um hlutina fyrir mig. 

Það að ég gráti eða finni fyrir sorg á meðan ég skrúbba gólf, geng frá fötum eða gleymi mér í minningum, þýðir ekki að þau augnablik séu slæm. Þau þýða það einfaldlega að ég er mannleg og að ég leyfi mér að finna. Svo ég geti haldið áfram að upplifa og njóta. Svo ég geti haldið áfram að elska fólkið mitt sem er enn hjá mér og njóta þess af öllu hjarta. 

Kannski ég nýti þennan fallega vetrar laugardag í það að panta barnarúm og leyfi mér aðeins að njóta.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vangaveltur 12. janúar 2019

Vangaveltur 16. maí 2023

Vangaveltur 12. október 2017